Frá fæðingu þar til barnið fer að skríða. Verndun barnsins og komið í veg fyrir slys.

Geta barnsins

Ungbörn eru algjörlega háð foreldrum eða öðrum varðandi þarfir sínar og öryggi. Þau hafa enga stjórn á umhverfi sínu og þurfa á fullorðnum einstaklingi að halda til að tryggja heilbrigði sitt og öryggi.
Áður en börn ná þeim þroska að framkvæma meðvitaðar hreyfingar eins og að teygja sig eftir hlut eða að velta sér, eru öll slys sem þau lenda í á ábyrgð forráðamanna þeirra. Það er hlutverk þeirra að gæta öryggi barnsins. Það skiptir máli að vera viðbúin því að börn geta stundum meira en maður heldur.
Hafa ber í huga að börn eru ekki leikföng. Það er munur á því hvort leikið er við börnin eða leikið með þau. Þau þola t.d. ekki að þeim sé hent upp í loft eða þau hrist.

Ungbörn 0-5 mánaða:

 • Eru með þunna húð - húðin er allt að 15 sinnum þynnri en húð fullorðinna.
 • Eru með stórt og þungt höfuð miðað við líkamsstærð.
 • Eru með höfuðkúpu sem á enn eftir að vaxa saman og eru því mjúkir blettir á henni.
 • Eru með óþroskuð bein.
 • Fyrstu mánuðina hafa börn litla eða enga stjórn á hreyfingum sínum en geta þó iðað, sparkað og baðað út handleggjum og þannig hugsanlega fært sig úr stað.
 • Frá 3 mánaða aldri geta ungbörn farið að velta sér sjálf þegar þau eru látin liggja á baki eða maga (ath. sum börn eru einungis nokkurra daga gömul þegar þau ná að velta sér á meðan þau hreyfa útlimina).
 • Frá 3 mánaða aldri geta þau farið að teygja sig eftir hlutum og grípa um þá.

Ítreka þarf við foreldra í hverri heimsókn að BARN ER ALLTAF Á ÁBYRGÐ FORRÁÐAMANNA SINNA. Lítil börn eiga því aldrei að vera eftirlitslaus.

Algeng slys hjá þessum aldurshópi og gátlisti fyrir slysavarnir

Fall

Úr hæð
Ungbarn getur hlotið alvarlega áverka við fall úr lítilli hæð. Dæmi eru um að ungbörn hafi með iðandi hreyfingum sínum færst að brún á rúmi eða skiptiborði á meðan þau voru skilin eftir án eftirlits. Hreyfing barns þarf þó ekki að vera ástæðan fyrir fallinu. Dæmi er um að ungbarn hafi höfuðkúpubrotnað þegar það féll í ungbarnabílstól sem var settur ofan á þvottavél sem var í gangi. Titringurinn í vélinni olli því að stóllinn færðist til og barnið féll í gólfið.

Margir foreldrar nota ömmustóla/taustóla fyrir barnið. Ef barn er skilið eftir í slíkum stól t.d. uppi á borði, geta endurteknar hreyfingar barnsins, fært stólinn til með þeim afleiðingum að hann fellur fram af borðinu. Að auki má benda á að ekki er gott fyrir bak ungbarns að sitja lengi í taustól.

Slysavarnir

 • Aldrei skal skilja barn eftir eitt á skiptiborði, í rúmi eða á öðrum háum flötum. Ekki eitt augnablik.
 • Barnabílstóla og ömmustóla/taustóla á aldrei að skilja eftir uppi á borði eða öðrum háum flötum.

Niður stiga
Ein algengasta orsök þess að börn á þessum aldri slasast í stiga er þegar sá sem heldur á barninu rennur eða dettur í stiganum. Mikilvægt er að hafa handrið við stiga. Oft er viðkomandi að halda á öðrum hlutum í leiðinni og hefur því ekki lausa hönd til þess að halda sér í handrið. Stigi má heldur ekki vera háll, stamt gólfefni er öruggara. Mikilvægt er að halda í handrið þegar haldið er á barni í stigum.

Lélegur skófatnaður þess sem heldur á barninu getur einnig valdið falli. Skór sem eru t.d. slitnir eða víðir, með þykkum botni eða lausar töfflur geta því verið varasamir í stigum.

Leikföng og aðrir hlutir sem skildir hafa verið eftir í stiga geta einnig verið slysagildra. Þá hafa slys orðið á börnum vegna þess að sá sem heldur á þeim reynir að klifra yfir öryggishlið frekar en að opna það.

Slysavarnir

 • Haldið stiganum auðum.
 • Hafið handrið við stigann.
 • Sá sem heldur á barni upp eða niður stiga ætti alltaf að halda sér í handriðið.
 • Öryggishlið ættu að vera bæði við efra og neðra stigaop. Mikilvægt er að fara eftir notkunarleiðbeiningum.
 • Stiginn má ekki vera háll, stamt gólfefni er öruggara.

Köfnun

Vegna rúmfatnaðar
Ungbörn hafa takmarkaða hreyfigetu og hreyfingar þeirra eru mikið til ósjálfráðar. Þau geta auðveldlega kafnað í rúmfatnaði, öðrum fatnaði og vegna annarra hluta sem þau ná ekki að ýta frá sér, t.d. leikfanga sem sett eru í rúmið til þeirra. Koddar og stórar sængur eru ekki æskilegur rúmfatnaður fyrir börn yngri en 1 árs. Dæmi er um að börn hafi kafnað vegna þess að þau voru skilin eftir eftirlitslaus á grjónapúðum, í vatnsrúmum eða liggjandi á brjóstagjafapúðum.
Um 1 árs aldur hafa börnin náð meiri hreyfiþroska og geta því ýtt frá sér hlutum.

Slysavarnir

 • Notið ekki kodda á fyrsta aldursári.
 • Notið léttar sængur sem henta stærð barnsins.
 • Leggið barnið á bakið í vögguna eða rimlarúmið.
 • Skiljið barn aldrei eftir á grjónapúða, í vatnsrúmi eða á brjóstagjafapúða.

Aðrar ástæður köfnunar
Því miður hafa nokkur börn kafnað þegar fullorðnir einstaklingar hafa tekið þau upp í rúm til sín og sofnað með þau í fanginu. Þannig getur barnið lent undir þeim fullorðna og kafnað. Svona slys eru sem betur fer ekki algeng og það eru svo sannarlega mörg börn sem sofa vel upp í hjá mömmu og pabba. Við mælum þó með því að börn séu vanin á að sofa í sínum rúmum strax frá byrjun. Einstaklingur sem tekur slævandi lyf eða hefur drukkið áfengi sefur mun dýpra en aðrir og ætti því aldrei að hafa barn upp í rúmi hjá sér.
Algengt er að börn séu lögð sofandi í sófa eða upp í hjónarúm. Ungbörn hafa kafnað eftir að hafa fest höfuðið milli púða í sófum og á milli rúms og veggjar.
Kettir eiga það til að leita í hlýja staði til að liggja á og hafa þeir stundum lagst ofan á andlit barna sem sofa vært í barnavagni, vöggu eða rúmi. Yngri börn halda oft að ungbörn séu dúkkur og finnst gaman að leika sér með þau. Slys hafa orðið þegar þau hafa breitt yfir andlit ungbarnanna.

Slysavarnir

 • Öruggast er fyrir barnið að sofa í eigin rúmi og því er mikilvægt að venja barnið á það frá upphafi.
 • Skiljið börn ekki eftir ein sofandi í sófum eða rúmum fullorðinna.
 • Notið ávallt hlífðarnet á barnavagninn til að hindra að kettir komist inn í hann.
 • Gætið þess að kettir komist ekki upp í rúm til smábarna.
 • Fylgist vel með börnum sem eru að leika sér nálægt ungbarni.

Aðskotahlutur í hálsi
Aðskotahlutur í hálsi getur valdið köfnun. Algengasta ástæða köfnunar vegna þrengingar á öndunarvegi er, óháð aldri, matur eða drykkur. Börn fæðast með sogviðbragð og hafa almennt ekki þroska til að borða fasta fæðu fyrr en nokkurra mánaða gömul.
Aldrei ætti að skilja ungbarn eitt eftir með pela því það getur ekki ýtt honum frá ef því svelgist á. Einnig er hætta á því að smábörn reyni að setja t.d. sælgæti, hnetur eða annað upp í munn ungbarna.

Slysavarnir

 • Skiljið ungbarn aldrei eitt eftir með pela.
 • Hafið auga með eldri börnum og brýnið fyrir þeim að setja ekkert upp í munninn á litla barninu.
 • Tryggið að litla barnið nái ekki í smáhluti.

Hengingar

Vegna fatnaðar
Víða í Evrópu hafa verið settar reglur sem minnka hættu á slysum vegna barnafatnaðar. Ekki eru slíkar reglur í gildi hér á landi, en einhverjir framleiðendur barnafatnaðar hérlendis hafi tekið mið af þeim reglum sem eru í gildi í Evrópu. Mikilvægt er að upplýsa almenning um mögulegar hættur, því ekki er óalgengt að börn klæðist heimasaumuðum og prjónuðum fötum. Hætta á hengingum er aðallega vegna reima í hettum og borða í hálsmálum.

Einnig er hætta á að ungbörn festi fingur eða tær í hekluðum eða útprjónuðum fatnaði eða teppum, en það getur valdið blóðrásartruflun í fingrum og tám með alvarlegum afleiðingum.

Vegna annarra banda og skartgripa
Allt sem sett er utan um háls barna getur valdið köfnunarhættu. Hálsmen geta verið varasöm og aldrei ætti að láta barn vera með snuð hangandi í snúru um hálsinn. Einnig geta hringar og armbönd verið slysagildra.

Slysavarnir

 • Verið viss um að föt barnsins þrengi ekki að hálsi þess. Fjarlægið reimar og bönd úr fatnaði.
 • Tryggið að fingur og tær festist ekki í hekluðum eða prjónuðum fatnaði eða teppum.
 • Setjið ekki hálsmen á ungbörn né aðra skartgripi og látið þau aldrei vera með snuð hangandi í snúru um hálsinn.
 • Barn má aldrei sofa með snuðkeðju.

Brunaslys

Húð ungbarna er þynnri og viðkvæmari en húð fullorðinna. Þess vegna brennur húð þeirra auðveldar og brunasár verða dýpri. Hversu slæmur bruninn verður fer eftir ýmsu t.d. hversu lengi barnið er í snertingu við hlutinn, hversu heitur hann er og stærð og staðsetningu hans.

Þar sem líkami ungbarna er lítill þarf ekki mikið til þess að stór hluti líkama þeirra verði fyrir skaða. Ungbörn hafa ekki hreyfiþroska til að forða sér í burtu frá skaðvaldinum, eins og fullorðnir og því verður skaðinn oftast meiri (dæmi: miðstöðvarofnar). Viðbragðsflýtir ungbarna er mun seinni en fullorðinna. Þannig geta liðið 1 ½ - 2 ½ mínúta áður en það áttar sig á að hluturinn er heitur og færir sig frá honum.

Vegna heitra vökva
Margir foreldrar nota örbylgjuofn til að hita pela fyrir barnið. Það er fljótlegt og þægilegt en innihald pelans hitnar mismikið og getur það því brennt barnið í munninum. Einnig er hætta á bruna þegar verið er að drekka heita drykki með barnið í fanginu. Það þarf ekki mikla hreyfingu barns, hins fullorðna eða jafnvel heimilisdýrs til að orsaka slíkt. Heitur vökvi getur valdið brunaskaða hjá barni allt að hálftíma eftir suðu, eða löngu eftir að hann myndi skaða húð fullorðins einstaklings.

Vegna böðunar
Þegar ungbörn eru böðuð skal þess gætt að vatnið sé hæfilega heitt (=37°C). Í dag eru til nákvæmir hitamælar og mælt er með notkun þeirra. Ef hitamælir er ekki til staðar er næst öruggast að sá sem baðar barnið setji framhandlegg sinn í vatnið til að aðgæta hitastigið. Ef ekki eru hitastýrð blöndunartæki á baðkerinu á að láta kalda vatnið renna fyrst og bæta síðan því heita við og blanda vel saman. Ekki yfirgefa börn þegar þau eru í baði. Gætið að börn fikti ekki í blöndunartækjum.
 
Slys vegna heitra hluta
Slík slys eru sem betur fer ekki algeng hjá börnum á þessum aldri þar sem þau hafa ekki getu til þess að færa sig á milli staða. Hins vegar geta slys af þessu tagi orðið vegna aðgæsluleysis forráðamanna, til dæmis ef viðkomandi teygir sig yfir barn með heitan hlut (dæmi: matur, drykkur, matarílát, straujárn).

Slysavarnir

 • Ekki er mælt með því að hita drykki og mat fyrir börn í örbylgjuofni. Ef það er gert þarf að hrista pelann vel á eftir og láta standa í smástund á borði. Athuga þarf hitastigið, t.d. á innanverðum handlegg áður en barninu er gefinn pelinn. Sama á við um mat sem hitaður er, hræra þarf vel í honum og láta standa í stutta stund áður en hann er gefinn barninu.
 • Drekkið aldrei heita drykki með barn í fanginu.
 • Athugið alltaf að hitastig baðvatnsins sé ekki yfir 37°C áður en barnið er sett ofan í það.

Vegna sólar
Nýlegar rannsóknir sýna að börn sem sólbrenna eru líklegri til að fá húðkrabbamein síðar á lífsleiðinni. Sólbruni er bæði sársaukafullur og hættulegur börnum. Íslendingum hættir til að vanmeta styrk sólarinnar og gera því lítið til þess að verja húðina. Gleymið ekki að hægt er að sólbrenna þó skýjað sé í veðri. Á ung- og smábörn þarf að nota mun sterkari sólarvörn en á þá sem eldri eru. Mikilvægt er að brýna fyrir foreldrum að láta ekki ungbörn vera úti í sólinni yfir hábjartan daginn.

Slysavarnir

 • Setjið barnið í léttan fatnað sem hylur mikinn hluta líkamans. Setjið hatt á barnið sem skyggir á andlit þess og háls.
 • Notið sólarvörn sérstaklega ætlaða ungum börnum.
 • Leyfið yngstu börnunum ekki að vera úti í sólinni yfir hábjartan daginn.

Drukknun

Í baðkerinu
Ungbörn og smábörn geta drukknað í vatni sem er ekki nema 2-5 cm djúpt. Það getur gerst á 1-3 mínútum og án þess að barnið gefi frá sér hljóð. Þau hafa ekki getu til þess að sjá og forðast hættur né geta þau sjálf bjargað sér upp úr vatninu. Það er því mikilvægt að skilja aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, barn eftir eitt í baði.

Mikilvægt er að láta ung börn aldrei gæta ungbarns í baði, ekki eitt augnablik. Börn undir 12 ára aldri hafa ekki náð þroska til að þekkja og forðast hættur, hvað þá að gæta yngri barna.

Fáanlegur er ýmiskonar búnaður til að auðvelda böðun barna t.d. baðsæti. Mikilvægt er að hafa í huga að slíkur búnaður er einungis ætlaður til þæginda en er ekki öryggisbúnaður. Börn geta auðveldlega oltið um koll í baðsætum og drukknað á örstuttum tíma eins og áður segir.

Slysavarnir

 • Skiljið aldrei barn eftir eitt í baði, ekki eitt augnablik.
 • Treystið ekki eldri börnum til þess að gæta barns sem er í baði. Þau missa athyglina auðveldlega og gleyma fljótt ráðleggingum.
 • Munið að baðsæti eru ekki öryggisbúnaður. Skiljið því barn aldrei eftir eitt í slíku sæti.

Skurðir og mar

Eins og áður hefur komið fram eru litlar líkur á því að ungbarn á þessum aldri meiði sig sjálft, vegna takmarkaðrar hreyfigetu. Ein af fáum undantekningum er að ef barni er rétt eitthvað til þess að halda á. Ungbarn fæðist með sterkt gripviðbragð og heldur fast um það sem sett er í lófa þess. Barnið getur síðan ekki stjórnað hreyfingum hlutarins. Það getur alltaf gerst að ungbarn slái sig með leikfangi eða öðru sem það heldur um. Það er því mikilvægt að gæta þess að láta barnið einungis leika sér með mjúk leikföng, en hlutir sem hafa skarpar brúnir geta skorið og marið barnið.
Ef barn meiðir sig á annan hátt þá er það af völdum annars aðila.

Slysavarnir

 • Vandið val á leikföngum fyrir barnið. Veljið einungis leikföng sem hæfa aldri og þroska þess. Leikföng eiga að þola að í þau sé togað og upp á þau snúið.
 • Fylgist með hvers konar leikföng eldri systkini rétta því yngra.
 • Teygið ykkur ekki yfir barn til þess að ná í einhvern hlut.

Þegar farið er út með barnið

Í barnavagni
Áður en barn er sett í barnavagn í fyrsta sinn, hvort sem um nýjan eða notaðan vagn er að ræða, er mikilvægt að fara yfir hann og fullvissa sig um að t.d. bremsurnar virki, hann sé stöðugur og allt sé vel og rétt fest saman.

Mikilvægt er að venja sig á frá fyrsta degi að setja beisli á barnið, þannig venst það á það strax. Það er rangt að ekki sé þörf á því fyrr en barnið fer að geta hreyft sig meira og sest upp. Mörg dæmi eru um að barnavagnar hafi fokið um koll, keyrt hafi verið á þá og að þeir hafi runnið stjórnlaust eftir að sá sem keyrði vagninn missti takið á honum af einhverjum ástæðum.

Slysavarnir

 • Farið vel yfir vagninn áður en hann er notaður í fyrsta sinn, hvort sem um nýjan vagn eða notaðan er að ræða.
 • Venjið ykkur á að setja beisli á barnið strax frá fyrsta degi.
 • Látið barnið ekki sofa úti í vagni í miklu roki né frosti.
 • Notið hlífðarnet fyrir vagninn til að hindra að kettir og skordýr komist að barninu.
 • Gætið þess að eldri börn klifri ekki á vagninum á meðan barnið er í honum.

Í magapoka
Vinsældir magapoka hafa verið að aukast. Flesta þeirra er hægt að byrja að nota þegar barnið er einungis nokkurra daga gamalt. Ungbörnum þykir nálægðin við foreldrana, taktfastar hreyfingar þeirra og hjartslátturinn þægilegur. Helsta hættan á meiðslum í þessum pokum er ef foreldrið dettur og lendir ofan á barninu. Þessa poka má alls ekki nota í bílnum í stað ungbarnabílstóls.

Slysavarnir

 • Gætið þess að pokinn sé rétt festur, þannig að engin hætta sé á að hann losni af.
 • Farið varlega í stigum og á ójöfnum flötum.

Eldvarnir

Eldsvoðar á heimilum fólks eru alltof tíðir og oft hefur litlu mátt muna að heimilisfólk hafi komist heilu og höldnu út. Flest dauðaslys í eldsvoðum verða vegna reykeitrunar frekar en brunasára. Ungbörn hafa engan möguleika á að komast sjálf út og eru því í meiri hættu en aðrir. Til eru almennar leiðbeiningar um eldvarnir í heimahúsum sem allir ættu að kynna sér. Þessar leiðbeiningar eiga við um alla aldurshópa, börn sem fullorðna.

Slysavarnir

 • Reykskynjarar eiga að vera á öllum heimilum. Best er að fá ráðleggingar hjá fagmönnum um staðsetningu þeirra. Mikilvægt er að skipta um rafhlöður í þeim reglulega, ekki sjaldnar en einu sinni á ári.
 • Slökkvitæki og eldvarnateppi eiga einnig að vera á öllum heimilum. Fáið ráðleggingar hjá fagmönnum um rétta staðsetningu.
 • Hafið númer Neyðarlínunnar 112 við öll símtæki á heimilinu.
 • Mikilvægt er að kunna rétt viðbrögð við eldsvoða. Kynnið ykkur almennar leiðbeiningar um eldvarnir.
 • Setjið upp flóttaáætlun. Ekki geyma það þangað til það er orðið of seint.
 • Gangið úr skugga um að ástand rafmagnsmála á heimilinu sé gott og standist lög um rafmagnsöryggi. Bilaðar rafmagnssnúrur og innstungur ætti að laga strax.
 • Geymið eldspýtur og kveikjara þar sem börn ná ekki til.
 • Skiljið ekki eftir logandi kerti í mannlausum herbergjum.
 • Djúpsteikingarpottar hafa valdið mörgum húsbrunum og eru sérstaklega varasamir.
 • Lítið aldrei af pottum og pönnum meðan eldavél er í gangi.
 • Olíulampar geta verið stórhættulegir ef ekki er farið eftir leiðbeiningum framleiðanda við notkun þeirra.

 

Gátlisti fyrir slysavarnir 0-5 mánaða barna

Ungbörn hafa ekki getu til þess að læra að forðast hættur í umhverfi sínu. Á þessum aldri eru þau algjörlega háð því að foreldrar og aðrir fullorðnir tryggi öryggi þeirra.

Til foreldra
Nýbakaðir foreldrar eru mjög uppteknir af því að gera allt rétt og mjög opnir fyrir öllum ráðleggingum. Það er því mikilvægt að ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og læknar, sem sinna fjölskyldunni, nýti sér það og gefi þeim skýrar og nákvæmar leiðbeiningar um öryggi ungbarna.

Helstu aðferðir við fræðslu

 • Bæklingar og rit. Mikilvægt er að afhenda foreldrum fræðsluefnið Slysavarnir 0-5 mánaða barna og ræða um innihald þess.
 • Einstaklingsfræðsla. Þegar fræðsluefni er afhent er mikilvægt að fara yfir innihald þess lið fyrir lið, því það er kannski í eina skiptið sem foreldrar fara yfir það.
 • Hópfræðsla. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar og læknar fræði foreldra utan heilsugæslunnar t.d. á foreldranámskeiðum og „foreldramorgnum“.

Flestir nýbakaðir foreldrar verða varir við það að ættingjar og vinir vilja gefa þeim góð ráð varðandi umönnun barnsins. Þessi ráð hafa mikil áhrif á foreldrana en þeir verða að átta sig á því að þessi ráð eiga ekki endilega við í dag þó þau hafi virkað vel fyrir nokkrum árum. Tímarnir hafa breyst, vitneskjan aukist og í dag er hugað meira að öryggi barna. Þar að auki er til mjög góður öryggisbúnaður fyrir börn sem auðvelt er að koma fyrir og nota.

Ítreka þarf við foreldra í hverri heimsókn að BARN ER ALLTAF Á ÁBYRGÐ FORRÁÐAMANNA SINNA. Lítil börn eiga því aldrei að vera eftirlitslaus.