Gullteigur B, föstudagur 16. nóvember, kl. 8:30 - 10:00                                                                                              

Fundarstjóri: Lúðvik Ólafsson lækningaforstjóri

 

Útlit og ímynd

Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri

Um erindið:

Staða lækna gagnvart óskum um útlitsbreytingar er skoðuð  í ljósi átaka milli læknisfræðilegra greiningarskilmerkja og félagslegs æskileika. Læknisfræðin er grein sem starfar á landamærum náttúruvísinda og félagsfræði. Greiningarferli læknisfræðinnar fer eftir lögmálum náttúruvísindanna en úrlausnin verður oft niðurstaða flókins samnings milli læknisins og sjúklingsins. Hver er staða lækna og hlutverk þegar kemur að óskum sjúklinga um útlitsbreytingar án þess að ástandið geti greinst vera utan líffræðilega eðlilegra marka? Læknar eru bæði veitendur og þiggjendur útlitsbreytinga. Geta þeir gefið hlutlægt mat? Gerir samkeppnin læknum erfitt fyrir með að vera varkárir þegar kemur að aðgerðum með óþekkta framvindu?


Í og á, PIP-púðar og tattoo

Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir

Um erindið:

Á síðastliðnu ári hefur margt opinberast um okkar innri mann, hégóma og veikleika, til sálar og líkama. Eins þar sem margt er óljóst milli læknisfræðinnar og útlitsdýrkunar, atvinnuskapandi iðnaðar, tísku og heilbrigðis. Þetta á ekki síst við um afleiðingar ýmissa inngripa í mannslíkamann með íhluti (implants) og það sem fer á hann. Afleiðinga sumra lýtaaðgerða til ímyndaðrar fegrunar, húðfúrs (tattoo) og hringjaskrauts (piercings), í húð, kynfæri og munn.
Eftir sl. áramót kom þannig í ljós að brjóstapúðar, sem þúsundir íslenskra kvenna höfðu fengið á sl. árum og jafnvel áratugum, reyndust alls ekki jafn öryggir og áður hafði verið talið og margir hriplekir. Þar sem sílikon vessaði um brjóstin og sogæðakerfið, jafnvel milli rifja, inn í brjósthol og víðar um líkamann. Leki sem var að meðaltali í um 20% tilvika eftir innan við 10 ára notkun, en sem upphaflega var talið geta gerst í um 3% tilvika.
Það sem þó olli mesta fjölmiðlahvellinum og varð til þess að öll þessi mál komu fram í dagsjósið var hneykslið með PiP púðana svokölluðu (Poly Implant Prothese) og aðgerðir/aðgerðarleysi heilbrigðisyfirvalda sem á eftir fylgdi. Þar sem um hafði verið að ræða svikna brjóstapúða sem innihéldu iðnaðarsílikon, og upphaflega var ekki ætlað í menn heldur húsgögn, og gúmmískel sem tærðist upp og lak miklu oftar en aðrar sambærilegar skeljar eftir aðeins nokkra ára notkun (>50% á 10 árum). Umræða sem kom líka af stað vangaveltum um allskonar aukaefni sem gat verið í púðunum og hugsanleg óþrifnað við framleiðsluna. Ekki síst meðal 400 íslenskra kvenna sem fengið höfðu PIP púðana illræmdu og voru illa upplýstar í upphafi, en sem lifðu síðan í örvæntingu eftir því hvað verða vildi. Ekki bætti úr skák þegar fram stigu konur sem sögðu ófagrar sögur um afleiðingarnar sem sumir læknar líktu við áverka eftir stríðsskaða, afleiðinga sprengibrota í brjóstholi auk afleiðinga af eiturefnahernaði. Hvernig í ósköpunum mátti þetta allt verða í íslenska velferðarþjóðfélaginu og sem státar sig af einu besta heilbrigðiskerfi í heimi?
Hvernig getur heilsugæslan brugðist við vanda sem þessum sem við erum reyndar aðeins búin að sjá toppinn af, hvað afleiðingarnar varðar? Nýju lýðheilsuvandamáli þúsunda kvenna þar sem allt að 10% í ákveðnum aldurshópum þarf að glíma við það sem eftir er ævinnar. Hvernig á að rannsaka hugsanlegar aukaverkanir og afleiðingar af sílikonleka einum og sér? Eins er fróðlegt að velta fyrir sér ábyrgð framleiðenda og lýtaskurðlækna, ekki síst í ljósi illa upplýsts samþykki kvennanna fyrir aðgerðinni í byrjun og úreltra leiðbeininga landlæknis fyrir ungar konur sem hugðu/huga á brjóstafyllingar.
Mikil aukning hefur líka orðið í að fólk fái sér húðflúr (tattoo) hér á landi á síðustu árum, eins og annars staðar í hinum vestræna heimi. Í Bandaríkjunum hefur aukningin verið úr 14% 2008, í 21% á þessu ári sem nálgast þá að fjórði hver fullorðinn sé kominn með húðflúr. Jafnvel þar sem tugprósent af yfirborði líkamans er húðflúrað með alls konar litarefnum sem við vitum oft lítið hvað innihalda og standast ekki neinar heilbrigðiskröfur sem gerðar eru til lyfja, hjúkrunar- eða lækningavara. En sem við vitum að geta innihaldið ósterilt vatn, sýkla, sveppi, þungmálma og önnur eiturefni, sem sitja mun jafnvel ævilangt í húð og vessum þess sem það ber.
Sannarlega tilefni til að vera mikið betur á varðbergi hér á landi gegn öllum þessum íhlutum og efnum, í og á, og að gerðar verði meiri heilbrigðiskröfur til þeirra en gerðar eru í dag. Eins og reyndar með öll efni og lyf sem eru manneskjunni ætluð. Hvort efnin verða síðan til fegrunarauka eða ekki, þegar upp er staðið, er allt önnur saga og ekki endilega fallegri.

Kynfæri kvenna, hvað er vandamálið?

Ebba Margrét Magnúsdóttir fæðinga- og kvensjúkdómalæknir

Um erindið:

Fyrirlesturinn fjallar í stuttu máli um útlit kynfæra kvenna, hvað er eðlilegt og hvað ekki.
Af hverju konur hafa í auknum mæli verið að óska eftir aðgerðum á kynfærum sínum, er það
klámvæðingin eða aðrar ástæður.  Rakstur og vaxmeðferð  á kynfærasvæði hefur einnig
færst í vöxt þannig að eldri konur vilja líta út eins og börn að neðan.
Þessi þróun hefur vakið kvensjúkdómalækna til umhugsunar og höfum við séð alvarlega
fylgikvilla þessara aðgerða hérlendis. 


Útlitsdýrkun og líkamsvirðing

Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur

Um erindið:

Fjöldi rannsókna staðfestir að félags- og menningarlegir þættir gegna lykilhlutverki við að skapa þá miklu óánægju með líkamsvöxt og útlit sem einkennir líf vestrænna kvenna. Við leit að skýringum á þessari þróun hafa fræðimenn einkum beint sjónum sínum að grannholda fyrirmyndum í fjölmiðlum og dýrkun á grönnum vexti en samfélagsleg skilaboð um holdafar eru þó mun fjölbreyttari. Við fáum ekki aðeins skilaboð um að vera grönn heldur einnig að vera ekki feit. Fjallað verður um hvaða áhrif þessi  skilaboð geta haft á andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði og rætt um hvað hugtakið líkamsvirðing hefur að bjóða samfélagi sem hefur sagt líkamanum stríð á hendur.