Markmið mæðraverndar er:

  • Að stuðla að heilbrigði móður og barns.
  • Að greina áhættuþætti á byrjunarstigi og bregðast við þeim.
  • Að veita fræðslu og ráðgjöf um meðgöngu og fæðingu.

Verðandi foreldrar sem búa á þjónustusvæði stöðvarinnar eru velkomnir í mæðravernd.
Mæðravernd er í höndum ljósmæðra og lækna stöðvarinnar.

Æskilegt er að haft sé samband við ljósmóður fyrir 10. viku. Konum er fylgt eftir með reglubundnum skoðunum fram að fæðingu.
Fjöldi skoðana á meðgöngu eru á bilinu 7-11.

Ómskoðun fyrir þungaðar konur fer fram á Kvennadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Símaviðtalstími er alla virka daga frá kl. 11:00 til 12:00.

Hraust kona í eðlilegri meðgöngu fer á heilsugæslustöðina sína.

Þjónusta á meðgöngu:

  • Skoðanir og viðtöl
  • Blóð- og þvagrannsóknir
  • Leiðbeiningar og fræðsla til foreldra
  • Foreldranámskeið
  • Fósturgreining með ómun (fer fram á kvennadeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss)

Í fyrstu skoðun er viðtal við ljósmóður. Rætt er um heilbrigða lifnaðarhætti og um tilgang, framkvæmd og skipulag mæðraverndinnar. Teknar eru blóðprufur, mældur blóðþrýstingur og hlustað eftir hjartslætti fósturs.

Í hverri mæðraskoðun er fylgst með almennri líðan konunnar, hún er vigtuð, mældur er blóðþrýstingur, athugað er hvort eggjahvíta eða sykur finnst í þvagi, lega og stærð fósturs er metin og hlustað er eftir fósturhjartslætti. Einnig er veitt fræðsla og ráðgjöf eins og við á hverju sinni.

Boðið er upp á fræðslunámskeið fyrir verðandi foreldra.
Ljósmæður gefa nánari upplýsingar um námskeiðin.