Læknarnir hafa bókaða tíma á stöðinni og er hver tími venjulega 15 mínútur.  Nauðsynlegt er að panta tíma nema um skyndileg veikindi eða slys sé að ræða. Oftast fæst tími innan 5 daga.

Í áríðandi tilvikum er alltaf hægt að fá þjónustu og ef heimilislæknirinn er ekki viðlátinn sinnir vakthafandi læknir eða hjúkrunarfræðingur erindinu.

Heimilislæknar stöðvarinnar fara í vitjanir til þeirra sem af heilsufarsástæðum geta ekki komið til viðtals á stofu.

Námslæknar eru oft starfandi á stöðinni. Þeim er leiðbeint af sérfræðingum stöðvarinnar og leita til þeirra við lausn vandamála, þegar þörf krefur. Barnalæknir sinnir tilvísunum í ungbarnaeftirliti inn á stöðinni.   Fæðingarlæknir sinnir einnig sérstökum tilvísunum inni á stöðinni

Ekki er gert ráð fyrir að læknar stöðvarinnar svari tölvupósti nema samið sé um það við viðkomandi lækni. Tölvupóstur er ekki öruggur boðskiptamiðill og ekki hægt að tryggja persónuvernd í slíkum samskiptum. Einfalt er að senda stuttar fyrirspurnir í gegnum Heilsuveru. Nauðsynlegt er að hafa rafræn skilríki.

Sérfræðingar í heimilislækningum hafa lokið 4-5 ára sérnámi líkt og aðrir sérfræðingar í læknastétt.
Hver fjölskylda hefur rétt á að leita til heimilislæknis með heilsufarsvandamál sín.

Heimilislæknirinn:

  • hefur yfirsýn yfir heilsufar þitt og fjölskyldu þinnar, veitir ykkur samfellda þjónustu og er tengiliður ykkar við heilbrigðisþjónustuna.
  • greinir og meðhöndlar heilsuvanda þinn og veitir þér markvissa ráðgjöf ef þörf er á frekari hjálp í heilbrigðiskerfinu svo sem sérfræðiþjónustu.
  • gætir fyllsta trúnaðar og gagnkvæmt traust ríkir milli hans og þeirra sem hann sinnir.

Læknar stöðvarinnar skrifa gjarnan tilvísanir til sérgreinalækna.

Þegar farið er til sérgreinalækna vinsamlegast biðjið þá um að senda heimilislækni læknabréf.

Ef upp koma hnökrar í samskiptum skjólstæðings og viðkomandi heimilislæknis þá hvetjum við fólk til að ræða það fyrst við sinn heimilislækni.

Ef sjúklingur treystir sér ekki til að leita til hans áfram og óskar því eftir að skipta um lækni þarf að bera upp erindið við fagstjóra lækninga á stöðinni og skýra málavöxtu. Reynt verður eftir föngum að útvega sjúklingum annan lækni innan stöðvarinnar þegar svo ber undir.

Heimilislæknirinn getur sagt upp skjólstæðingi ef trúnaðarbrestur hefur orðið.