Flestir foreldrar kannast við ráðleggingar um að hrósa börnum og að hrós sé góð og gagnleg aðferð í uppeldi. Og allir þekkja hve notalegt það er að fá hrós eða aðra viðurkenningu þegar maður hefur lagt sig fram, hvort sem það er að í vinnunni eða heima t.d. að elda mat fyrir fjölskylduna, gera fínt í kring um sig eða skrifa pistil á netið!

Og hvort sem maður er fullorðinn eða barn getur það valdið neikvæðum tilfinningum, svo sem vonbrigðum, pirringi eða reiði, ef hvorki hrós né nokkur önnur viðbrögð eru gefin við góðu framtaki. Eins og ég fjallaði nýlega um í pistli hér á Miðjunni (Að grípa börn góð) gerir það börn óviss um hvort þau eru að gera rétt eða ekki, ef þau fá enga athygli t.d. þegar þau una sér róleg við að byggja úr kubbum eða skoða bók. Þau geta upplifað skort á athygli sem hunsun og jafnvel lært að eina leiðin til að almennilega sé tekið eftir manni sé að vera með hávaða eða gera eitthvað af sér.

Foreldrar eru líka oft óvissir um hvernig best sé að hrósa börnum, hversu mikið er heppilegt og hvort ekki sé hætta á að börn verði montin ef þeim er hrósað of mikið. Notkun ýmiss konar umbunar og þar á meðal hróss hefur verið mjög mikið rannsökuð, bæði hvaða áhrif þetta hefur á hegðun, líðan og samskipti fólks almennt og hvernig það dugar í uppeldi. Það er því mikið vitað um hvað reynist vel og hvað þarf að varast í þessu sambandi. Ég ætla að nefna nokkur atriði sem skiptir máli þegar verið er að hrósa börnum, en minni þó aftur á að hrós er ekki eina leiðin til að gefa viðurkennandi svörun því bros, athygli, lítil snerting, fingurkossar o.s.frv. eru líka góðar leiðir. En hrós hefur það umfram hinar leiðirnar að þá er í leiðinni hægt að veita barninu leiðsögn og önnur mikilvæg skilaboð um til hvers er ætlast af þeim. Því er oft talað um að „lýsandi hrós“ sé æskilegt.

  1. Eins og í öllum samskiptum við börn er mikilvægt að tryggja að maður sé í sambandi, þ.e. að barnið sé að veita manni athygli og hlusti. Besta leiðin til að gera þetta er að vera nálægt barninu og í augnsambandi.
  2. Nota skýrt orðalag og frekar færri orð en fleiri. Fram þarf að koma fyrir hvað er verið að hrósa barninu, t.d. „nú varstu dugleg að klára matinn þinn“ eða ,,þú varst aldeilis fljótur að taka til dótið þitt“, „þið voruð dugleg að sitja og leika fallega saman“. Ef einungis er sagt, „þú ert góð stelpa“ eða „nú varstu duglegur strákur“ er ekki víst að barnið viti fyrir hvað hrósið var.
  3. Það er gott að bæta við hrósið athugasemd um tilfinningar barnsins, t.d. „þú hlýtur að vera stoltur“, „ertu ekki glöð hvað þetta gekk vel“, „nú ertu örugglega ánægð …“. Þetta kennir barninu að það er eðlilegt og sjálfsagt að vera glaður eða stoltur þegar vel hefur gengið og maður hefur lagt sig fram – það er ekki sama og vera montinn. Á sama tíma er verið að hjálpa börnum að æfa að tengja líðan við tilfinningaorð og kenna að eðlilegt sé að tala um hvernig manni líður. Svo ýtir þetta líka undir góða sjálfsmynd.
  4. Þegar verið er að hrósa þarf að forðast samanburð við aðra, svo sem „þú stóðst þig vel í prófinu, þú er langbestur í öllum bekknum“, eða „rosalega varstu duglegur að hengja upp fötin þín, þú ert miklu duglegri en bróðir þinn“. Svona samanburður er alger óþarfi og getur vanið barnið á að bera sig óhóflega saman við aðra. Það sem skiptir máli er að barnið fái hrós fyrir það sem það sjálft gerir vel, óháð því hvernig aðrir standa sig. Auk þess er líka mjög óheppilegt að vera með svona samanburð á milli systkina og er til þess fallið að ýta undir neikvæðar tilfinningar.
  5. Það þarf að passa að beina hrósinu ekki alltaf bara að útkomu þess sem barnið gerði, t.d. í stað þess að segja „mikið er þetta flott mynd hjá þér“ og „rosalega gerirðu flott kubbahús“ væri hægt að segja, „mikið varstu dugleg að klára heila mynd alveg sjálf“ og „rosalega varstu duglegur að sitja og kubba svona lengi“. Þarna er áherslan á athöfnina og það að leggja sig fram, frekar en að vera klár í að skapa flott listaverk. Og er það ekki einmitt það sem foreldrar vilja gjarnan sjá hjá börnum sínum, þ.e. að þau geti unað sér við uppbyggilegan leik? Þótt það sé auðvitað gott mál ef þau geta í leiðinni búið til eitthvað fallegt sem þau eru stolt af.
  6. Síðast en ekki síst er alveg bannað að gagnrýna á sama tíma og verið er að hrósa, að lauma gagnrýni eða smá skömmum inn í hrósið. Þetta gæti t.d. verið, „nú stóðstu þig frábærlega að taka til í herberginu þínu, en ég vildi óska að þú gerðir það oftar“, eða „þetta er flott mynd sem þú teiknaðir, en þú litaðir útfyrir hérna“ og „nú varstu duglegur að greiða þér, en þú ert í skítugum buxum“. Börn sem fá svona hrós upplifa það ekki sem alvöru hrós og það er líka hætta á að þetta rugli þau í ríminu – var verið að hrósa mér eða skamma mig? Svona tvöföld skilaboð eru alltaf óheppileg í uppeldi. Ef foreldrinu finnst mikilvægt að gefa barninu fyrirmæli um fleiri verk, væri hægt að segja við barnið sem var að klæða sig, „nú varstu duglegur að greiða þér og orðinn fínn um hárið“. „þá skaltu næst fara í þessar hreinu buxur“. Hér er gefið hrós og síðan ný fyrirmæli en engin gagnrýni. Svo má endilega hrósa aftur þegar búið er að klára buxnamálin.

Svona í lokin má svo minna á að hrós og önnur jákvæð svörun er ekki bara góð og árangursrík aðferð til að kenna og viðhalda æskilegri hegðun hjá börnum, heldur ýtir það undir góð samskipti og betri líðan hjá fólki almennt. Það er ágæt æfing fyrir alla að taka sig til og skoða hvort og hvernig maður sjálfur notar hrós í daglegum samskiptum við börn, maka og annað samferðafólk.

Gyða Haraldsdóttir, yfirsálfræðingur á Þroska- og hegðunarstöð
Þessi pistill birtist fyrst á Miðjunni 08/03/2010