Að kenna börnum að takast á við reiði

Það getur reynst erfitt að kenna börnum aðferðir til að takast á við reiði sína vegna þess að reiðitilfinningar eru oft ófyrirsjáanlegar. Besta leiðin til að æfa sig í reiðistjórnun er því á rólegum stundum þegar líklegra er að börnin bregðist vel við tillögum foreldra sinna en annars. Þess vegna er ekki um annað að velja en að nota tímann á milli reiðikasta og annarra uppákoma eins vel og hægt er. Meðferðaráætlunin byggist á sex skrefum sem hvert um sig eru mjög mikilvæg.

  1. Það verður að æfa aðferðir til að róa sig daglega, t.d. að blása alvöru- og þykjustusápukúlur  Hvettu barnið þitt til að blása þykjustusápukúlur þegar það reiðist.
  2. Sestu niður með barninu til að ákveða ýmsar gerðir umbunar sem það getur fengið fyrir að gera öndunaræfingar sínar (daglega) og fyrir að beita æfingunum þegar því  sárnar eða reiðist. Ekki gleyma umbuninni, hún gegnir lykilhlutverki í því þegar börn eiga að ná tökum á skapi sínu.
  3. Reyndu að finna dæmi um þegar þú nærð góðum árangri í að takast á við eigin streituvalda og vektu athygli barnsins á því. Segðu barninu einnig frá þeim aðferðum sem þú beitir við vandamál til að gefa því dæmi um hvernig það gæti brugðist við áþekkum aðstæðum. Ef þér finnst þú vera að missa stjórnina skaltu nota öndunaræfingarnar.
  4. Þegar barnið fer að æsa sig upp skaltu hvetja það til að gera öndunaræfingarnar og hætta svo öllum afskiptum af málinu. Því fyrr  sem þú gerir þetta, þeim mun aðveldara verður fyrir barnið að fylgja leiðbeiningunum. Ef beðið er þar til barnið er orðið hamslaust eru æfingarnar að öllum líkindum gagnslausar. Ekki láta ótta þinn við algjört brjálæðiskast koma í veg fyrir að þú beitir aga. Mjög mikilvægt er að barnið sé ávarpað á rólegan og yfirvegaðan hátt.
  5. Almennt séð er best að forðast að lenda í rifrildi en stundum er það óhjákvæmilegt. Segðu barni þínu hvernig það geti tjáð tilfinningar sínar á viðeigandi og uppbyggilegan hátt þegar það virðist vera réttlætanlegt. Reyndu að halda þig við þær ögunaraðferðir sem ákveðnar voru fyrirfram. Ekki lenda í samningaviðræðum. Það veldur einungis því að það verður erfiðara fyrir þig að komast hjá því að reiðast líka.
  6. Þjálfaðu aðferðir til leita lausna á vandamálum með barninu við „auðveldar“ aðstæður á hverjum degi eða hverju kvöldi í heilan mánuð. Farðu yfir þrepin fimm: Hvert er vandamálið? Hvaða möguleikar eru í stöðunni? Hvaða val hef ég? Hvernig get ég skipulagt með fyrirvara næst? Hvernig tókst mér upp?

Þar sem svo erfitt er að tileinka sér þessa færni og hún er svo mikilvæg er nauðsynlegt að æfa sig. Því fyrr sem barn getur áttað sig á að það er að byrja að reiðast, þeim mun auðveldara verður því að gera æfingar sínar og þeim mun áhrifaríkari verða þær. Því meiri áhersla sem lögð er á að kenna barni þessa færni og því minni viðbrögð sem eru sýnd þegar barnið reiðist, þeim mun auðveldara verður barninu að læra að hafa stjórn á reiði sinni. Þegar barnið hefur lært að takast á við eigin reiði þarf það miklu minni hjálp við það en áður.

Birt með leyfi úr Uppeldisbókinni, Viðauka I
© Skrudda 2008.