Brjóstsviði er algengur fylgikvilli  meðgöngu. Vegna hormónabreytinga hægist á starfsemi meltingarfæranna sem seinkar tæmingu magainnihaldsins. 

Loft og magasýrur berast upp í vélinda og valda brjóstsviða. Einnig getur þrýstingur á maga móðurinnar vegna stækkunar á legi og barni aukið einkennin. Það reynist oft hjálplegt að borða oftar en minna í einu.

Sumar fæðutegundir geta aukið á brjóstsviðann s.s. hvítkál, laukur, pylsur, pítsur og mikið  kryddaður matur, einnig matur sem steiktur er í mikilli fitu.  
 
Ef brjóstsviðinn eykst við að leggjast útaf á kvöldin gæti hjálpað að hækka höfðalagið í rúminu. Setja má bækur/handklæði undir dýnuna eða fæturna á rúminu svo að dýnan halli svolítið. Ef þessi ráð duga ekki til, má reyna töflur eða mixtúru við  brjóstsviða, sem fást í apóteki án lyfseðils. 

Hafa ber í huga að öll lyf við brjóstsviða geta valdið harðlífi og hægðatregðu. Því þarf að auka enn frekar vökva og trefjainntekt, þegar þau eru notuð. Veldu því  gróft brauð og kornvörur og líka gróft morgunkorn.

Borðaðu ávexti daglega, ferska og þurrkaða (döðlur, gráfíkjur, rúsínur, sveskjur, apríkósur). Allt grænmeti er líka ríkt af trefjum, hvort sem það er snætt hrátt eða eldað. Til að trefjarnar virki vel þarf að drekka nóg af vökva og  er vatnið best.

Það getur verið að þú þolir illa sumar fæðutegundir. Reyndu að finna hvað fer vel í þig og hvað gerir líðanina betri. 
 

Ekki er gott að leggjast útaf fljótt eftir máltið, láttu líða að minnsta kosti klukkustund áður en þú leggur þig eftir að hafa borðað.

 

Brjóstsviði, hvað er til ráða?

 

Yfirfarið 2016.
Höfundar: Karitas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, ljósmæður mæðravernd Þróunarsviði.