Ráð til foreldra

Hugsaðu fyrirfram um félagslegar aðstæður sem geta orðið barninu erfiðar. Á hvaða stöðum er líklegt að barninu muni leiðast eða valda vandræðum?

Áður en farið er af stað:

  • Farðu yfir gildandi reglur.
  • Gerðu samkomulag við barnið um umbun fyrir góða hegðun.
  • Gefðu skýr skilaboð um viðurlög við óhlýðni.

Láttu barnið hafa eftir þér reglurnar, viðurlögin og umbunina til að vera viss um að barnið hafi skilið þetta og muni það.

Minntu barnið á umbunina á jákvæðan hátt á meðan þið eruð í umræddum aðstæðum. Ekki hóta barninu. Prófaðu: „Ef þú manst eftir að..., færðu að...“ Ekki: „Ef þú ferð ekki að haga þér vel strax, færðu ekki að...“

Gefðu umbunina um leið og þið yfirgefið staðinn sem málið snerist um.
Dæmi:

  • Hafa fyrirvara. Þú þarft að taka barnið með í búð og veist að það á erfitt með að bíða í röðinni við kassann og vill grípa sælgæti sem þar er.
  • Fara yfir regluna. „Þegar við erum í röðinni áttu að passa hendurnar. Ég vil að þú haldir á töskunni minni á meðan við bíðum.“
  • Ákveða umbun. „Þig langaði að fara að gefa öndunum. Ef þú passar hendurnar förum við á eftir og gefum öndunum.“
  • Fara yfir afleiðingar. „Ef þú tekur nammi, förum við ekki að gefa öndunum“.
  • Láta barnið endurtaka regluna og umbunina. „Passa hendurnar. Ég fæ að fara að gefa öndunum ef ég passa hendurnar.“
  • Minna á umbunina á jákvæðan hátt á meðan verslað er. „Gaman að við skulum ætla að fara að gefa öndunum. Brauðið bíður úti í bíl“
  • Umbuna barninu strax. Keyrðu beint frá búðinni að andatjörninni. Segðu: „Þegar maður fylgir reglunum, fær maður að gera skemmtilega hluti“.

Ef barnið virðist vera að gleyma reglunni, beindu athyglinni að einhverju öðru, og minntu aftur jákvætt á umbunina. Prófaðu þetta: „Nei sko! Það er mynd af önd á þessum kassa. Ætli við sjáum svona önd á eftir?“ En ekki þetta: „Það er eins gott fyrir þig að haga þér almennilega, annars verður ekkert gefið öndunum í dag“.

Forðastu eins og hægt er að nota orðið ekki. Gefðu jákvæð fyrirmæli um leið og þú beinir barninu að því sem þú vilt að það geri. Prófaðu: „Ég vil sjá hendurnar þínar á borðinu“. En ekki: „Ekki snerta blómið þarna“.

Láttu barnið hafa eitthvað fyrir stafni. Ef barnið þarf að sitja og bíða einhvers staðar, passaðu þá að hafa eitthvað meðferðis sem það getur leikið sér að. Gott er að hafa sérstakan kassa með litlum leikföngum og bókum í bílnum í þessum tilgangi.

Reyndu að hafa jafnvægi á milli skipulagðra og frjálsra athafna. Mundu að barnið getur aðeins sinnt venjulegum borðverkefnum stutta stund í einu.

Lærðu að sjá erfiðleika fyrir. Þegar þú sérð að barnið þitt er að byrja að missa stjórn við ákveðnar aðstæður, gríptu strax inn í. Bryddaðu upp á einhverju óvæntu til að beina athygli barnsins í aðra átt til að hjálpa barninu að ná stjórn á sér. Ekki gera eitthvað sem ýtir undir að óróleikinn haldi áfram.

Passaðu upp á sjálfa/n þig! Stundum gætirðu þurft að yfirgefa erfiðar aðstæður stutta stund til að ná þér niður. Gott er að hafa aðgang að nágranna eða vini sem hægt er að hringja í með stuttum fyrirvara til að passa barnið, þó ekki væri nema 10 mínútur. Minntu sjálfa/n þig á allt það sem þú áorkar og framfarirnar sem barnið sýnir. Það sem þú leggur á þig mun skila árangri!

Sourcebook for Children with ADD: Second Edition. Copyright © 1998, 1991 by Communication Skill Builders, a division of The Psychological Corporation. Icelandic translation copyright © 2003 by Communication Skill Builders. Reproduced by permission. All rights reserved. Íslensk þýðing: Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur, Miðstöð heilsuverndar barna.