Kostir brjóstamjólkur

Brjóstamjólkin hefur jákvæð áhrif á næringu, ónæmiskerfi, heilbrigði og þroska barnsins.

Hún hefur hárrétta samsetningu næringarefna sem barnið nýtir til fulls. Hún inniheldur alla næringu og vökva sem barnið þarfnast a.m.k. fyrstu 6 mánuðina. Brjóstamjólkin er alltaf fersk, hún er auðmelt fyrir barnið og álag  á nýru þess er minna þegar það fær brjóstamjólk en þurrmjólk.

Barn sem nærist eingöngu á brjóstamjólk fær síður hægðatregðu, niðurgang, eyrnabólgu, þarma-, lungna- og þvagfærasýkingar.

Rannsóknir víða í heiminum hafa sýnt fram á jákvæð áhrif brjóstamjólkur þegar til lengri tíma er litið, m.a. hefur verið sýnt fram á minni líkur á sykursýki, exemi, offitu og ofnæmi. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós góð áhrif brjóstamjólkur á greind og vitsmunaþroska barna.

Kostir brjóstagjafar

Brjóstagjöfin hefur jákvæð áhrif á heilbrigði, sálræna líðan, félagslega velferð, umhverfi og fjárhag.

Brjóstagjöf strax eftir fæðingu eykur samdrátt í legi móðurinnar, minnkar líkur á blæðingu og styrkir legvöðvann. Brjóstagjöf stuðlar að því að móðirin er fljótari að ná fyrri þyngd að nýju eftir fæðingu. Brjóstagjöf getur verndað gegn brjósta- og eggjastokkakrabbameini og styrkt bein móðurinnar. 

Hormón sem koma að framleiðslu mjólkur (oxytocin, prólaktín, endorfín) hafa róandi áhrif á móður og barn. Nærveran og hlýjan sem skapast við brjóstagjöf er barninu mikilvæg. Brjóstagjöfin styrkir tengsl milli móður og barns.

Næturgjafir eru auðveldari; það þarf ekki að fara fram úr um miðjar nætur til að hita mjólk. Brjóstagjöf fylgir enginn þvottur eða sótthreinsun pela og brjóstamjólkin kostar ekki peninga.

Mundu að þín brjóstamjólk er fullkomin fæða fyrir barnið þitt og aðlagast breyttum þörfum þess jafnóðum og barnið vex

Yfirfarið: Í apríl 2013.
Höfundar: Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, ljósmæður mæðravernd Þróunarsviði heilsugæslunnar.