icon

Almennur þjónustutími 8:00-12:00 og 12:45-16:00Námskeið eru á mismunandi tímum
icon

Tekið er við tilvísunum frá fagfólkivegna vísbendinga um frávik í þroska eða hegðun

Hvað gerum við?

Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) veitir 2. stigs þjónustu fyrir börn í grunn- og framhaldsskólum að 18 ára aldri. Sinnt er greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna raskana og annarra erfiðleika í taugaþroska, hegðun eða líðan.

 

Þverfaglegur starfshópur vinnur eftir markvissu skipulagi með hámarks fagleg gæði að leiðarljósi. Áhersla er á gott viðmót og einstaklingsmiðaða nálgun. 

 

ÞHS á reglulegt faglegt samstarf við aðra mennta-, félags- og heilbrigðisþjónustu víðsvegar um landið.

 

Lágmarksgjald er innheimt fyrir námskeið, að öðru leyti er þjónustan gjaldfrjáls.

 

Nánari upplýsingar um þjónustuna eru undir flipum hér fyrir ofan.

 

The Centre for Child Development and Behaviour (CCDB): Information in English

Fréttir

Fréttamynd

19.03.2020

Varast að valda börnum kvíða

Nú þegar umfjöllun sem tengist COVID-19 veirunni er mjög fyrirferðarmikil er nauðsynlegt að reyna að átta sig á hverju börnin eru að velta fyrir sér, hvernig þau skilja hlutina, hvað þau halda að þetta þýði fyrir þau sjálf, hvort þau eru kvíðin og hvað þau óttast.... lesa meira

Fréttamynd

27.02.2020

Svörin um lyfjagjöf við ADHD

Ýmsar spurningar brenna á foreldrum varðandi lyfjagjöf við ADHD. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið eru á börnum á grunnskólaaldri og hafa sýnt fram á að þegar lyfin eru notuð eftir leiðbeiningum læknis eru þau örugg.... lesa meira

Fréttamynd

16.12.2019

Orkuboltar með ADHD

Börn með ADHD eru gjarnan hressir, skemmtilegir orkuboltar með fjörugt ímyndunarafl. Eru oft listrænir skapandi einstaklingar og með leiðtogahæfileika. Athyglisbrestur, stutt úthald, ofvirkni og hvatvísi geta hins vegar haft afar hamlandi áhrif á hegðun, nám, félagasamskipti og líðan.... lesa meira

Sjá allar fréttir

Við tökum vel á móti þér

Námskeið

Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) heldur fræðslu- og meðferðarnámskeið fyrir foreldra og börn:

 • Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar: fyrir foreldra ungra barna til að efla uppeldisfærni og kenna leiðir til að fyrirbyggja erfiðleika og þróa styrkleika.
 • Uppeldi barna með ADHD: til að styðja foreldra í að tileinka sér hagnýtar og sannreyndar uppeldisaðferðir.
 • Snillingarnir: fyrir börn sem greinst hafa með ADHD til að þjálfa þau í samskiptum, tilfinningastjórn og athygli.
 • Klókir litlir krakkar: fyrir foreldra 3-6 ára barna sem eru ofurvarkár og kvíðin.
 • Klókir krakkar: fyrir 8–12 ára börn með kvíðaröskun og foreldra þeirra.
 • Vinasmiðjan: fyrir 10-12 ára börn sem greinst hafa á einhverfurófi.

ÞHS stendur reglulega fyrir leiðbeinenda- og þjálfunarnámskeiðum fyrir fagfólk og ADIS námskeiði fyrir fagfólk.

Greiningarþjónusta ÞHS

Þjónusta ÞHS er fyrst og fremst fyrir höfuðborgarsvæðið, en einnig önnur landsvæði ef ekki býðst sambærilegt úrræði á heimaslóð. Vísa má barni í greiningu ef vísbendingar eru um frávik í þroska eða hegðun sem hamla því í daglegu lífi og tiltæk íhlutun dugar ekki. 

 

Beiðnir um greiningu skulu berast frá fagfólki á sérstökum eyðublöðum ásamt skriflegu leyfi foreldra/barna og öðrum fylgigögnum. 

 

Nánari leiðbeiningar og upplýsingar um tilvísanir og nauðsynleg fylgigögn eru undir flipanum tilvísanir en mjög mikilvægt er að vanda tilvísanir til að auðvelda úrvinnslu.

 

Ef áhyggjur eru fyrst og fremst af frávikum svo sem greindarskerðingu, málþroskaröskun eða sértækum námserfiðleikum heyrir málið undir sérfræðiþjónustu skóla og á ekki að vísa til ÞHS.

 

Hafi frumgreining sýnt hamlandi vanda barns er mikilvægt að markviss íhlutun hefjist án tafar. Í miðlungs- og vægari tilfellum skal einungis senda tilvísun eftir að íhlutun og endurmat í kjölfar hennar hefur farið fram en í alvarlegum tilfellum má samhliða íhlutun vísa beint í nánari greiningu á ÞHS. 

 

Ef óvissa er um þörf á greiningu eða hvort ÞHS er rétta úrræðið, má leita samráðs við Inntökuteymi ÞHS í síma 585 1350 eða í tölvupósti.  

Verklag ÞHS um tilvísanir vegna vísbendinga um ADHD hjá börnum á leikskólaaldri og yngsta stigi grunnskóla 

Tilvísun

Áður en tilvísun er útbúin þarf að liggja fyrir hvaða athuganir hafa verið gerðar og hvort reynt hafi á íhlutun. 

 

Ekki skal senda tilvísun um barn sem þegar er á biðlista eftir greiningu hjá öðrum aðilum. 

 

Vegna nánari greiningar þarf að fylgja sálfræðiskýrsla þar sem fram koma niðurstöður úr vitsmunaþroskaprófi og matslistum. Einnig samantekt um þroska- og félagssögu barns og núverandi stöðu þess heima og í skóla, varðandi námsframvindu, hegðun, líðan, fjölskylduhagi og samskipti við fullorðna og jafnaldra.

 

Við útfyllingu tilvísunareyðublaðs þarf að gera eftirfarandi:

 • Útfylla rafrænt alla viðeigandi reiti eyðublaðsins – ekki prenta blaðið út og handskrifa.
 • Merkja við efst á eyðublaðinu hvort óskað er eftir frumgreiningu eða nánari greiningu.
 • Nota þar til gert eyðublað til að fá skriflegt leyfi foreldra fyrir tilvísun, frekari upplýsingaöflun og dreifingu gagna
 • Stutt lýsing á ástæðum tilvísunar verður að koma fram á tilvísuninni sjálfri – ekki er nóg að vísa í fylgigögn. Nefna stuttlega allt sem mestu máli skiptir – helstu áhyggjur, styrkleika og veikleika barnsins, fyrri aðgerðir og um hvað er beðið.
 • Afla allra umbeðinna fylgigagna í samræmi við aldur barns og tegund tilvísunar. 
 • Prenta útfyllta tilvísun, undirrita og senda ásamt undirrituðu leyfi foreldra og öðrum fylgigögnum í umslagi stílað á: Þroska- og hegðunarstöð – Inntökuteymi, Þönglabakka 1, 109 Reykjavík.

 

 

 

 

Ferlið eftir tilvísun

Allar tilvísanir eru teknar fyrir á fundi inntökuteymis innan við viku eftir að þær berast. Í teyminu eru auk inntökustjóra barnalæknir og sálfræðingur.

 

Þegar erindið hefur verið metið fer bréf til foreldra, tilvísanda og heimilislæknis sem staðfestir móttöku tilvísunar, gefur upplýsingar um ferlið framundan og áætlaða bið. Lengd biðtíma fer eftir stöðu biðlista á hverjum tíma og mati á alvöru hvers máls. 

 

Í tímaröð eru næstu skref þessi: 

 • Öflun viðbótarupplýsinga, til dæmis með matslistum, ef þörf krefur.
 • Þverfagleg greining á þroskastöðu og einkennum í hegðun og líðan.
 • Skilaviðtal um greiningarniðurstöður og ráðgjöf þar um til foreldra.
 • Skilafundur til upplýsingar, ráðlegginga og fræðslu fyrir skóla og aðra sem sjá um eftirfylgd.
 • Myndun þjónustuteymis til að fylgja eftir skólaúrræðum á markvissan hátt.

Í kjölfar greiningar býðst foreldrum ýmiss konar þjónusta eftir því sem þurfa þykir. 

 

Þetta getur til dæmis verið:

 • Fræðsla og ráðgjöf til foreldra um leiðir til þroskaörvunar barns, færniþjálfunar, hegðunarmótunar og fleira
 • Lyfjameðferð fyrir börn sem greinast með ADHD og ráðgjöf þar að lútandi.
 • Sérútbúið fræðsluefni og hagnýt ráð um ýmis frávik og úrræði. 
 • Ýmis námskeið fyrir foreldra
 • Námskeið fyrir börn með ADHD
 • Tilvísanir í önnur meðferðarúrræði og/eða nánari greiningu.

Eftir að greiningarferli er lokið fá tilvísendur og heimilislæknir skriflegt svar með stuttri samantekt um aðgerðir og niðurstöður.

Fyrir hverja er nánari greining?

Nánari greining býðst grunn- og framhaldsskólabörnum að 18 ára aldri ef frumgreining bendir sterklega til athyglisbrests, ofvirkni (ADHD) eða skyldra raskana, svo sem tilfinningavanda, hegðunarerfiðleika, samskiptavanda eða hamlandi einkenna einhverfurófs. Miðað er við að greind sé almennt ekki undir þroskahömlunarmörkum og að þyngd vanda bendi ekki til fötlunar. Í þeim tilfellum mætti leita til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Skólasálfræðingar og fagaðilar heilbrigðis-, fjölskyldu- og félagsþjónustu geta vísað að uppfylltum skilyrðum um forvinnu. 

Fylgigögn

Mikilvægt er að fara eftir eftirfarandi leiðbeiningum um fylgigögn með tilvísunum: 

 

Tilvísun í nánari greiningu

Skilyrði fyrir móttöku tilvísunar í nánari greiningu er að fram hafi farið formleg prófun á vitsmunaþroska (WPPSI-RIS, WISC-IVISog að vandi barnsins hafi verið skimaður með viðeigandi mats- eða skimunarlistum.

 

Tölulegar niðurstöður prófa og matslista (hrátölur, mælitölur og prófílar) skulu fylgja tilvísun

 • Matslistar þurfa að hafa sýnt sterkar vísbendingar um hamlandi vanda barnsins. ADHD listar frá foreldrum og kennurum þurfa að sýna einkenni athyglisbrests eða ofvirkni/hvatvísi yfir viðmiðunarmörkum – skor að minnsta kosti 1,5 staðalfráviki yfir meðaltali jafnaldra. Eftirfarandi listar sem meta hegðun og líðan skulu einnig fylgja; ASSQ eða CAST og SDQ eða CBCL/TRF. Ef óskað er eftir nánari athugun á einkennum á einhverfurófi þarf skimun með CARS lista að hafa sýnt fram á umtalsverð einhverfueinkenni. Prófíll af CARS fylgi tilvísun. 
 • Minnt er á að þótt niðurstöður frumgreiningar kalli á nánari greiningu vandans er brýnt að koma strax í gang íhlutun og stuðningi í samræmi við greindar þarfir. Íhlutunin getur falist í úrræðum fyrir barnið innan og utan skóla og ráðgjöf, fræðslu og færniþjálfun foreldra. Ef einkenni eru væg eða miðlungs alvarleg skal fyrst láta reyna á úrræði og endurmeta stöðuna eftir um 6 mánuði, en í alvarlegum tilfellum má senda tilvísun samhliða skipulagningu íhlutunar. Sjá texta og myndrænt yfirlit um verklag við skimun, frumgreiningu og tilvísanir vegna ADHD. 

Nánari lýsingar á eiginleikum og notkun prófa og matslista fást í Matstækjalýsingar


Verklag ÞHS um tilvísanir vegna vísbendinga um ADHD hjá börnum á leikskólaaldri og yngsta stigi grunnskóla 

Þjónustuteymi

Í framhaldi af greiningu er algengt að mælt sé með styðjandi úrræðum í skóla barnsins. Til að framkvæmd þannig íhlutunar gangi vel og gagnist barninu sem best er góð samvinna milli foreldra og fagfólksins ákaflega mikilvæg. Samstarf skóla og foreldra þarf líka að vera reglubundið, markvisst og vel skilgreint.


Til að stuðla að vandaðri vinnu í þágu barnsins er heppilegast að stofnað sé sérstakt þjónustuteymi þar sem skilgreint og skráð er frá upphafi:

 • Hverjir eru í teyminu og hver leiðir það.
 • Hvert hlutverk teymisins er.
 • Hvaða þjónustu barnið skuli fá í skólanum.
 • Hvernig eftirfylgd og endurmati verði háttað.
 • Fyrirkomulag funda og annarra þátta teymisstarfsins.


Þegar niðurstöður og æskileg úrræði eru rædd á skilafundum með skólafólki er yfirleitt mælt þjónustuteymi fyrir barnið. Til að auðvelda utanumhald helstu upplýsinga er gagnlegt að nota þar til gert skráningarblað


Teymi barnsins - skráningarblað

Greining

Greining - hvað og til hvers?

 

 • Greining er ferli athugana, prófana og viðtala auk upplýsingaöflunar frá kennurum og öðru fagfólki.
 • Greining kortleggur styrkleika og veikleika barnsins í samhengi við umhverfisþætti.
 • Tilgangur greiningar er að svara því hvort barnið hefur frávik, hver og hve hamlandi þau eru og hvaða úrræði gætu gagnast.
 • Fagfólk sem kemur að greiningu er t.d. barna/barna- og unglingageðlæknar, sálfræðingar, talmeinafræðingar, iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar. 
 • Fyrstu formlegu athuganir eftir að grunur vaknar um frávik nefnast frumgreining.
 • Nánari greining er þegar þörf er á víðtækari og sérhæfðari athugunum á vísbendingum sem frumgreining benti til.

Úrræði - íhlutun

 • Árangur íhlutunar tengist því að greining fari fram fljótt eftir að vandi kemur fram.
 • Algeng úrræði sem mælt er með eftir greiningu, eru t.d:
 • Aðgerðir sem styðja við nám, hegðun og líðan barns heima og í skóla.
 • Færniþjálfun eða meðferð barns í einstaklings- eða hóptímum.
 • Ráðgjöf, fræðsla og færniþjáfun fyrir foreldra.

Frumgreining

Frumgreining á við um fyrstu formlegu athuganir sem gerðar eru eftir að grunur vaknar um frávik í þroska, hegðun eða líðan barns. Notuð eru stöðluð skimunar- og matstæki og niðurstöður um ástand eða árangur eru bornar saman við meðaltöl jafnaldra.


Fyrsti grunur um frávik getur komið fram í skoðunum ung- og smábarnaverndar heilsugæslu. Ef áhyggjur vakna hjá foreldrum ættu þeir fyrst að leita til heilsugæslu, en hafi kennarar áhyggjur leita þeir til skólaþjónustu síns skóla, eftir samráð við foreldra og samstarfsfólk.   


Tilgangur frumgreiningar er að kortleggja stöðu og meta þörf á íhlutun og/eða nánari greiningu. Því fyrr sem frávik greinast og íhlutun hefst, því meiri líkur eru á góðum árangri. Vitneskja um hver vandi barns er spáir fyrir um framtíðarhorfur barns, eykur skilning á þörfum þess og leiðbeinir um hvers konar úrræði gagnist best. 

 

Eftir frumgreiningu er ráðlagt um úrræði í samræmi við niðurstöður t.d. stuðning eða sérkennslu í skóla, meðferð eða sértæka færniþjálfun fyrir barn og/eða ráðgjöf og fræðslu fyrir foreldra. 

Nánari greining

Nánari greining kemur til ef frumgreining gefur sterkar vísbendingar um eina eða fleiri raskanir sem þörf er á að kanna og skilgreina betur. Samhliða tilvísun í nánari greiningu þarf að tryggja að barn og foreldrar fái úrræði í samræmi við niðurstöður frumgreiningar.

 

Nánari greining er ferli athugana, prófana og greiningarviðtala þar sem fleiri en einn fagaðili kemur við sögu. Hluti af greiningarferlinu er að afla upplýsinga frá foreldrum og kennurum, m.a. til að skoða breytingar yfir tíma og meta árangur íhlutunar sem þegar hefur verið reynd. 

 

Nánari greining getur staðfest eða hrakið vísbendingar um röskun og/eða leitt í ljós aðrar raskanir eða víðtækari vanda. Niðurstöðurnar nýtast til að skipuleggja heppilegasta innihald og framkvæmd áframhaldandi íhlutunar. Auk sérhæfðra úrræða í skóla er oft mælt með lyfjameðferð fyrir barn og ráðgjöf, sálfræðimeðferð, fræðslu og færniþjálfun fyrir barn og/eða foreldra.    

 

Ýmsar sérhæfðar stofnanir sinna nánari greiningu þroska- og hegðunarfrávika, svo sem ÞHS, BUGL og GRR. 

Frávik í þroska, hegðun og líðan

Hvert barn er einstakt og hefur persónubundna eiginleika sem ráðast bæði af erfðum og umhverfi. Þótt þroskinn fylgi mestan part nokkuð ákveðnu ferli, er eðlilegt að ýmiss breytileiki komi fram á milli einstaklinga. Slíkur breytileiki getur komið fram í þroskahraða, hegðun, skapgerð og fleiri þáttum.

Ef þroski, hegðun eða líðan barns víkur frá því sem telst eðlilegt fyrir aldur eða er til trafala við leik, nám eða samskipti er það skilgreint sem frávik. Mikilvægt er að finna slík frávik hjá börnum eins snemma og hægt er, svo grípa megi til úrræða sem draga úr erfiðleikum og bæta framtíðarhorfur.

Hér má sjá stuttar lýsingar á nokkrum algengustu frávikum hjá börnum en fræðsluefni um þroska- og hegðunarfrávik.

ADHD

ADHD (Attention Deficit Hyperactivity Disorder) á við um röskun í taugaþroska sem kemur aðallega fram sem einkenni í hegðun. Þessi einkenni hafa ýmis konar truflandi áhrif í för með sér á daglegt líf, t.d. nám, félagslega aðlögun, samskipti og líðan. Þessum einkennum er oft skipt í þrjá flokka:

 • einbeitingarerfiðleikar eða athyglisbrestur
 • hreyfióróleiki, ofvirkni
 • hvatvísi

Í greiningarviðmiðum flokkast hreyfióróleiki og hvatvísi saman sem ofvirkni. Einkenni athyglisbrests og ofvirkni fara ekki alltaf saman eða eru til staðar í mismiklum mæli hjá einstaklingum. Sumir greinast með bæði athyglisbrest og ofvirkni og sumir með athyglisbrest eingöngu. Flestir sem greinast með ofvirkni hafa einnig einkenni athyglisbrests að einhverju marki. Algengt er að nota styttinguna ADHD í daglegu tali yfir báðar eða aðra röskunina.


Einhverfa

Einhverfa er röskun í taugaþroska sem kemur yfirleitt fram snemma í barnæsku. Hún er skilgreind á sama hátt í flokkunarkerfunum ICD-10(1) og DSM-IV(2). Einkenni birtast í hegðun og koma fram á þremur sviðum: a) í félagslegu samspili b) í tjáskiptum og c) í sérkennilegri og/eða áráttukenndri hegðun. Mismunandi fjöldi og styrkleiki einkenna ásamt mikilli breidd í vitsmunaþroska ræður hinu fjölbreytta birtingarformi. Hugtakið röskun á einhverfurófi (autism spectrum disorder)3 nær yfir þennan breytileika. Fá dæmi eru um að börn „læknist“ af einhverfu enda þótt hægt sé að hafa mikil áhrif á framvindu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni (4). Þar af leiðandi er mikilvægt að finna börnin og hefja snemmtæka íhlutun sem fyrst (5, 6).


Nýlegar rannsóknir bæði íslenskar og erlendar hafa metið algengi einhverfurófsraskana hjá börnum undir 12 ára aldri á bilinu 0,6-1,0% og teljast þær því ekki sjaldgæfar (7, 8, 9).  Birtingarform einhverfu hjá ungum börnum getur verið mjög mismunandi. Einkenni geta lýst sér í lítilli eftirhermu, litlum áhuga á öðrum börnum, slöku augnsambandi, að svara illa kalli, takmörkuðum svipbrigðum, lítilli svörun við svipbrigðum annarra, að bjóða sjaldan huggun, frumstæðum leik, eða miklum endurtekningum (10). Í sumum tilfellum tapa börn niður færni sem þau hafa áður náð eða ganga í gegnum stöðnunarskeið, t.d. á málsviði eða í öðrum þroska.


Flestir foreldrar barna sem hafa greinst með einhverfu nefna að málþroski hafi verið fyrsta áhyggjuefnið. Í nýlegri íslenskri rannsókn svöruðu 76% foreldra barna með einhverfurófsraskanir að þeir hefðu haft áhyggjur af þroska eða hegðun fyrir 3 ára aldur. Svipað hlutfall foreldra taldi að þeir hefðu verið fyrstir til að tilgreina slíkar áhyggjur. Þegar litið var til baka töldu um 80% að einkenni einhverfu hafi verið sýnileg fyrir 2 ára aldur og nánast allir að þau hefðu verið komin fram fyrir 3 ára aldur (11). Enda þótt einkenni séu komin snemma fram, þá greinast flest börnin eftir 3 ára aldur og mörg ekki fyrr en á grunnskólaaldri. Síðast nefndi hópurinn verður þar með af snemmtækri íhlutun með mismunandi afleiðingum.


Heilsugæslan fylgir börnum frá unga aldri og yfir langan tíma og getur þar af leiðandi gegnt lykilhlutverki í að ná því marki að börn með einhverfu finnist fyrr.


Ef áhyggjur vakna hjá foreldrum varðandi þroskaframvindu barnsins er reglubundið ungbarnaeftirlit í heilsugæslunni góður vettvangur fyrir foreldra til að viðra áhyggjur sínar. Þar fyrir utan er t.d. hægt að leita til hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd, barnalæknis eða heimilislæknis. Hegðunarröskun

Hegðunarröskun er þýðing á enska heitinu Conduct Disorder. Röskunin lýsir mjög erfiðum hegðunarvanda barna og unglinga sem felur í sér að réttur annarra og/eða reglur samfélagsins eru brotnar endurtekið. Eingöngu 2 til 4% barna greinast með þessa röskun.


Til þess að hegðun barns eða unglings uppfylli greiningarskilmerki fyrir hegðunarröskun þurfa þrjú hegðunareinkenni að vera til staðar í að minnsta kosti 12 mánuði (en eitt þarf eingöngu að hafa verið til staðar í 6 mánuði). Að auki þarf hegðunin að vera töluvert hamlandi í samskiptum, námi eða vinnu. Erfið hegðun barns verður að koma fram á að minnsta kosti þremur af eftirfarandi sviðum svo að hún uppfylli greiningarskilmerki:


 • árásargirni/ýgi í garð fólks eða dýra
 • brot á reglum
 • hegðun sem veldur eyðileggingu á eignum
 • blekking eða þjófnaður


Tekið skal fram að barn sem sýnir erfiða hegðun telst ekki hafa hegðunarröskun nema að hegðun þess uppfylli þessi ofangreindu skilyrði. Algengt er til dæmis að börn á leikskólaaldri sýni erfiða, óæskilega hegðun. Þótt hegðun barns uppfylli ekki greiningarskilmerki fyrir mótþróa- eða hegðunarröskun er þó mikilvægt að foreldrar læri viðeigandi leiðir til þess að takast á við óæskilega hegðun. Slíkar leiðir má til dæmis læra á uppeldisnámskeiðum eða í ráðgjöf hjá sálfræðingi.


Athyglisbrestur með ofvirkni/hvatvísi er algengasta fylgiröskun hegðunarröskunar. Kvíði og/eða þunglyndi eru einnig algengar fylgiraskanir.


Sýnt hefur verið fram á að áhrifaríkasta meðhöndlun hegðunarröskunar barna undir 10 ára aldri sé notkun atferlismótandi aðferða heima og í skóla. Foreldrar geta fengið fræðslu um atferlismótandi aðferðir á uppeldisnámskeiðum. Dæmi um námskeið sem leiðbeina foreldrum með atferlismótandi aðferðir eru PMT foreldrafærni, SOS Hjálp fyrir foreldra og Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar. Foreldrar geta einnig fengið ráðgjöf varðandi atferlismótandi aðferðir hjá sálfræðingi.


Fyrir eldri börn hefur reynst árangursríkast að nota atferlismótandi aðferðir heima og í skóla ásamt því að efla færni barnanna sjálfra til að leysa vandamál. Hugræn atferlismeðferð er margþætt, virk og skipulögð leið til þess að meðhöndla hegðunarröskun sem og ýmsar aðrar raskanir og vísar í notkun hugrænna og atferlisfræðilegra aðgerða. Skjólstæðingurinn er fræddur um röskun sína og honum hjálpað að átta sig á því hvernig vandamál hans viðhelst. Honum er kennt að finna sjálfur lausnir á vandamálum út frá því að greina eigin ranghugmyndir og hugsanavillur og leiðrétta þær.


Með hugsanavillum er átt við ranga eða bjagaða túlkun og skilning fólks á atburðum. Ein tegund hugsanavillna er hugsanasía fyrir hið neikvæða, þar sem fólk útilokar jákvæðar hliðar aðstæðna og beinir athygli sinni að neikvæðu hliðunum. Dæmi um þetta er barn sem gengur vel í nokkrum fögum í skólanum en önnur fög eru barninu erfið. Þegar barnið sinnir fögunum sem reynast því erfið gæti barnið hugsað (hugsanavilla): „Ég er heimskur og lélegur í öllu“, þ.e. barnið gleymir því jákvæða við sjálft sig og sér aðeins það neikvæða. Hugsanavillur sem þessi gætu mögulega verið að kalla fram erfiða líðan og í kjölfarið óæskilega hegðun.


Hegðunarröskun hefur í daglegu tali verið nefnd andfélagsleg hegðun og er líklegra en ella að börn með þessa röskun leiðist út í afbrot síðar meir fái þau ekki viðeigandi aðstoð sem börn og unglingar. Það er því mikilvægt að áhrifaríkar leiðir séu notaðar til að koma í veg fyrir að hegðunarröskun þróist í erfiðari vanda seinna á lífsleiðinni.

Mótþróaröskun

Mótþróaþrjóskuröskun er þýðing á enska heitinu Oppositional Defiant Disorder (ODD) og er oftast kölluð mótþróaröskun til styttingar. Röskunin lýsir erfiðum hegðunarerfiðleikum barna og unglinga. Á Íslandi hefur mótþróaröskun verið algengasta fylgiröskun ofvirkni með athyglisbrest.

Til að börn fái greininguna mótþróaröskun þurfa þau að hafa sýnt erfiða hegðun í að minnsta kosti sex mánuði þar sem að lágmarki fjögur af eftirfarandi einkennum koma fram :

 • að missa stjórn á skapi sínu,
 • rífast við fullorðna,
 • neita að fara eftir óskum, fyrirmælum og/eða reglum fullorðinna,
 • pirra fólk vísvitandi,
 • kenna öðrum um eigin mistök,
 • vera hörundsár eða láta pirrast auðveldlega af öðru fólki,
 • reiðast auðveldlega og vera full/ur gremju,
 • vera hefnigjarn/hefnigjörn.

Sýnt hefur verið fram á að áhrifaríkasta meðhöndlun mótþróaröskunar sé að kenna foreldrum barna með mótþróaröskun að nota atferlismótandi uppeldisaðferðir, veita þeim fræðslu um röskunina og kenna barninu eða unglingnum að meta félagslegar aðstæður rökrétt og finna skynsamlegar lausnir á þeim.

Foreldrar geta fengið fræðslu um atferlismótandi aðferðir á uppeldisnámskeiðum. Dæmi um námskeið sem leiðbeina foreldrum með atferlismótandi aðferðir eru PMT foreldrafærni, ADHD námskeið, SOS – Hjálp fyrir foreldra og Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar.

Hugræn atferlismeðferð hefur reynst vel í meðferð mótþróaröskunar. Þessi meðferð gagnast þó yfirleitt ekki börnum mikið yngri en 9 ára þar sem talsverðan þroska þarf til þess að geta nýtt sér hana. Meðferðin er margþætt, virk og skipulögð leið til þess að meðhöndla ýmsar raskanir og vísar í notkun hugrænna og atferlisfræðilegra aðgerða. Skjólstæðingurinn er fræddur um röskun sína og honum hjálpað að átta sig á því hvernig vandamál hans viðhelst.

Honum er einnig kennt að finna sjálfur lausnir á vandamálum út frá því að greina eigin ranghugmyndir og hugsanavillur og leiðrétta þær. Með hugsanavillum er átt við ranga eða bjagaða túlkun og skilning fólks á atburðum. Ein tegund hugsanavillna er hugsanasía fyrir hið neikvæða, þar sem fólk útilokar jákvæðar hliðar aðstæðna og beinir athygli sinni að neikvæðu hliðunum. Dæmi um þetta er að barni gengur vel í nokkrum fögum í skólanum og kennarar eru jákvæðir í hans garð. Önnur fög eru barninu meira krefjandi. Þegar barnið sinnir þessum fögum gæti það skyndilega hugsað: ,,Ég er heimskur og lélegur í öllu". Barnið gleymir því jákvæða við sjálft sig og sér aðeins það neikvæða. Svona hugsun gæti mögulega verið að kalla fram erfiðu hegðun barnsins. 

Mótþróaröskun getur síðar þróast út í hegðunarröskun, sem er röskun sem lýsir mun alvarlegri hegðunarvanda. Það er því mikilvægt að áhrifaríkar leiðir séu notaðar til að koma í veg fyrir að mótþróaröskun þróist í erfiðari hegðunarvanda.

Matstæki sem notuð eru á Þroska- og hegðunarstöð

Vitsmunaþroski

Greindarpróf Wechslers fyrir leikskólaaldur (WPPSI-RIS)
WPPSI-RIS prófið er notað til að meta vitsmunaþroska barna á aldrinum 3:0 til 7:3 ára. Í því eru tíu ólík undirpróf,  sem reyna á þekkingu, verklagni, orðaforða o.fl. Sum undirprófin krefjast málskilnings og málnotkunar. Önnur eru verkleg og leyst með því að handfjatla hluti, púsla og teikna. Niðurstöður (mælitölur) fást fyrir mál-, verk- og heildargetu. Meðalgeta barna er á bilinu 85 til 115 þegar um mælitölur er að ræða en 7-13 fyrir stök undirpróf. Árangur barna er borinn saman við árangur íslenskra jafnaldra.

Greindarpróf Wechslers fyrir börn - fjórða útgáfa (WISC-IVIS)
WISC-IVIS prófið veitir mikilvægar upplýsingar um vitsmunaþroska barna á aldrinum 6:0 til 16:11 ára. Notuð eru tíu ólík undirpróf, þar sem leysa á ýmis verkefni sem reyna á almenna greind og sértækari þætti. Verkefni eru t.d. tengd orðaforða, röksemdafærslu, minni o.fl. Undirprófin flokkast í fjóra þætti, Málstarf, Skynhugsun, Vinnsluminni og Vinnsluhraða. Fyrir þessa þætti og heildarútkomu fást niðurstöður í mælitölum. Meðalgeta barna er á bilinu 85 til 115 þegar um mælitölur er að ræða en  fyrir stök undirpróf er meðal frammistaða á bilinu 7-13. Árangur barna er borinn saman við árangur íslenskra jafnaldra.

Bayley þroskapróf fyrir börn - þriðja útgáfa (Bayley-III)

Bayley-III metur vitsmuna-, mál- og hreyfiþroska barna sem eru yngri en 3:6 ára. Með því að leggja fyrir  verkefni er metið hvernig barninu gengur að skilja samhengi hluta og vinna úr ýmsum upplýsingum (vitsmunahluti), skilja mál og tjá sig (málhluti) og leysa verkefni sem krefjast fín- og grófhreyfinga (hreyfihluti). Þroskatölur fást fyrir prófhlutana þrjá og er meðalgeta barna á bilinu 85-115. Geta barnsins er borin saman við getu bandarískra jafnaldra. 

Annar þroski og dagleg færni

Spurningalisti um færni barna við daglega iðju (FBDI)

FBDI er spurningalisti sem aflar upplýsinga um þátttöku og færni barna við ýmsar daglegar athafnir. Spurt er um þætti sem lúta að eigin umsjá, leik og tómstundaiðju, þátttöku í skólastarfi, skynjun og hreyfingum auk handbeitingar og fínhreyfivinnu. 

Þroska- og færnikvarðinn Hawaii Early Learning Profile (HELP)

HELP er markbundinn kvarði fyrir börn á aldrinum 0-3 ára. Hann skiptist í sex mismunandi hluta sem lúta að þroska og færni. Þessir hlutar eru: Vitsmunaþroski, Máltjáning, Grófhreyfiþroski, Fínhreyfiþroski, Félagsþroski og Sjálfshjálp. HELP nýtist einnig fyrir eldri börn með víðtæka hreyfihömlun og börn sem ekki er unnt að leggja fyrir stöðluð fyrirmæli. Niðurstöður eru settar fram sem aldursviðmið. Geta barnsins er borin saman við getu bandaríska jafnaldra. 

Birting skynjunar hjá ung- og smábörnum (ITSP: Infant/Toddler Sensory Profile,)

Matslistinn nýtist til að fá mynd af skynúrvinnslu ung- og smábarna á aldrinum 0-36 mánaða. Metin er hegðun barnsins sem og viðbrögð við skynáreitum sem eru hluti af daglegum aðstæðum. Foreldrar merkja við hversu oft staðhæfingar matslistans eiga við. Matstækið er staðalbundið og viðmið eru bandarísk.

Íslenski þroskalistinn & Smábarnalistinn

Á Íslenska þroskalistanum og Smábarnalistanum eru spurningar um tvo þroskaþætti, hreyfiþroska og málþroska, sem ætlast er til að aðal umönnunaraðili svari. Í Smábarnalistanum eru spurningar um börn á aldrinum 15-38 mánaða og í Íslenska þroskalistanum eru spurningar um börn á aldrinum 3-6 ára. Heildarþroskatala og mælitölur Hreyfi- og Málþáttar eru á kvarða þar sem meðalgeta barna er á bilinu 85 til 115. Svörin eru borin saman við svör íslenskra mæðra jafngamalla barna.

Málþroskakönnun ASEBA (LDS: Language Development Scale)

LDS-hluti CBCL/1½-5 listans (sjá undir Hegðun, líðan: Spurningalisti um atferli barna) gefur ákveðna mynd af máltöku barna á aldrinum 18 til 36 mánaða. Þar merkja foreldrar við þau orð á orðalista sem  barnið notar, svara spurningum sem tengjast máltöku og nefna dæmi um setningar sem barnið segir. Orðaforði og setningabygging/myndun barnsins eru borin saman við getu bandarískra jafnaldra.

Færnipróf Millers (M-FUN: Miller function and participation scales 

M-Fun er staðalbundið próf ætlað 2;6 til 7;11 ára börnum. Prófinu er skipt í tvö aldursbil (2;6-3;11 og 4;0-7;11). Prófið er hannað til þess að greina færni barns við að samhæfa sjón og hreyfingar, fínhreyfingar og grófhreyfingar og er skipt niður í þessa þrjá hluta. Leggja má hlutana fyrir hvern fyrir sig eða alla saman. Niðurstöður fást fyrir hvern matshluta og eru settar fram í mælitölum og hundraðsröðum. Einnig fylgja matstækinu matslistar fyrir foreldra og kennara til þess að meta þátttöku í heima- og skólaumhverfi. Viðmið eru bandarísk.

Hreyfiþroskapróf fyrir börn (Movement ABC-2: Movement Assessment Battery for Children -2) 

M-ABC2 er staðalbundið hreyfiþroskapróf ætlað 3-16 ára börnum. Prófinu er skipt í þrjú aldursbil (3-6; 7-10; 11-16). Lagt er mat á þrjá þroskaþætti: Fínhreyfingar og fingrafimi, Sambeitingu sjónar og hreyfinga, Jafnvægi í kyrrstöðu og á hreyfingu. Niðurstöður eru settar fram í staðaltölum og er meðalgeta barna á bilinu 7-13. Einnig fást niðurstöður í hundraðsröð þar sem 50 er miðgildið. Viðmið eru bresk.

Færnipróf fyrir börn (PEDI: Pediatric Evaluation of Disability Inventory) 

PEDI er færnipróf fyrir börn á aldrinum 6 mánaða til 7:6 ára. Upplýsinga er aflað með viðtali við foreldra eða aðra sem annast barnið. Færni við eigin umsjá, hreyfi- og félagsfærni er metin auk þess sem sú aðstoð sem barnið fær er könnuð og hvaða hjálparbúnaður er notaður. Niðurstöður eru gefnar upp í staðaltölum (meðaltal 50 ± 10) og kvörðuðu gildi sem sýnir breytingar yfir tíma. Matstækið er að hluta þýtt og staðfært á íslensku. 

Birting skynjunar (SP: Sensory Profile)

Matslistinn nýtist til að fá mynd af skynúrvinnslu barna á aldrinum 3–10 ára. Metin er hegðun barnsins sem og viðbrögð við skynáreitum sem eru hluti af daglegum aðstæðum. Foreldrar merkja við hversu oft staðhæfingar matslistans eiga við. Niðurstöður gefa vísbendingar um skynþröskuld barnsins og þörf fyrir aðlögun viðfangsefna og umhverfis. Matstækið er staðalbundið og viðmið eru bandarísk.   

Hegðun,líðan

K-SADS greiningarviðtal

K-SADS er hálf staðlað greiningarviðtal, byggt á greiningarviðmiðum DSM-IV. Því er einkum ætlað að greina ofvirkniröskun, en jafnframt skima og skoða nánar aðra erfiðleika tengda hegðun og líðan hjá börnum og unglingum. K-SADS hefur víða verið notað erlendis og hér á landi m.a. hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss.

ADIS greiningarviðtal

ADIS er staðlað greiningarviðtal, byggt á greiningarviðmiðum DSM-IV. Því er einkum ætlað að greina kvíðaraskanir barna og unglinga, en jafnframt ofvirkni/hvatvísi og athyglisbrest, hegðunarvanda, mótþróa, depurð, og fleira.  

ÞHS gefur út viðtalshefti á íslensku og heldur ADIS námskeið fyrir fagfólk.

Matslisti um hegðun á heimili (HSQ)

Listinn er ætlaður aldrinum 4–11 ára og samanstendur af örstuttum lýsingum á 16 dæmigerðum aðstæðum á heimilum. Foreldrar meta hve margar þeirra valda barninu erfiðleikum og hversu miklum, á kvarðanum 1–9 (frá vægum erfiðleikum til mikilla). Svör eru borin saman við það sem vitað er um svör foreldra íslenskra barna. 

Matslisti um mótþróaröskun

Á mótþróaröskunarlistanum eru talin upp 9 atriði sem samrýmast einkennum í DSM-IV & ICD-10 greiningarkerfunum. Faðir, móðir og/eða annað fólk sem þekkir barnið, meta hve mörg atriðanna eiga við það. Sé merkt við fleiri en 3 atriði er talin ástæða til að skoða vanda barnsins  nánar.

Ofvirknikvarði (ADHD Rating Scale)

Með ADHD listanum eru metin einkenni um ofvirkni og athyglisbrest. Þau einkenni sem spurt er um samsvara greiningaratriðum í DSM-IV greiningarkerfinu. Svör foreldra og kennara eru borin saman við það sem vitað er um svör foreldra og kennara íslenskra og bandarískra barna og unglinga á aldrinum 4–16 ára.

Spurningalisti um atferli barna (CBCL&TRF fyrir 1½-5 ára eða CBCL&TRF fyrir 6-18 ára)

Listarnir gefa vísbendingar um ýmis einkenni í dagfari barna sem tengjast líðan þeirra og hegðun, svo sem hlédrægni, depurð, erfið hegðun, einbeitingarerfiðleikar.Foreldrar (CBCL) og kennarar (TRF) svara spurningalistunum. Svörin eru borin saman við svör foreldra bandarískra barna og kennara.

Spurningar um styrk og vanda (SDQ: Strength and Difficulties Questionnaire)

SDQ listinn gefur  vísbendingar um hegðun, tilfinningar og félagsleg samskipti barna 5 ára og eldri. Svör fullorðinna er þekkja barnið vel eru borin saman við svör foreldra og kennara íslenskra barna. Gefin eru heildarstig, auk þess sem stig fást fyrir undirkvarða sem taka til ofvirkni, erfiðleika í, tilfinningum og samskiptum við jafnaldra, auk hæfni í félagslegum samskiptum. 

 

 

 

Einhverfueinkenni

ADOS-2 próf fyrir einhverfueinkenni (Autism Diagnostic Observation Schedule, 2. útgáfa)

ADOS-2 er staðlað matstæki sem byggist  á beinni athugun á hegðun. Því er ætlað að meta tjáskipti, gagnkvæm félagsleg samskipti, áhugamál og hegðun þegar grunur er um röskun á einhverfurófi. ADOS felur í sér verkefni sem gera prófanda kleift að athuga hegðun sem hefur verið skilgreind sem mikilvæg í tengslum við greiningu raskana á einhverfurófinu. Áherslan er m.a. á leik, samræður, spurningar sem snúa að félagsþroska og tilfinningum og atriði sem lúta að daglegu lífi auk tiltekinna verkefna eins og t.d. að endursegja stutta sögu og að búa til sögu úr hlutum. ADOS matstækið er í fjórum einingum (modules) sem hver tekur um 35‐40 mínútur í fyrirlögn. Einungis ein eining er lögð fyrir hvern skjólstæðing og val á einingu til fyrirlagnar fer eftir málfærni og aldri skjólstæðings hverju sinni.

ADI-R greiningarviðtal fyrir einhverfu (Autism Diagnostic Interview)

ADI er kerfisbundið viðtal við foreldra eða umsjónaraðila til að greina einhverfu. Viðtalið tekur um eina og hálfa til þrjár klukkustundir.  Í viðtalinu er aflað upplýsinga um þroskasögu og einkenni einhverfu, bæði eins og einkenni eru í dag og við 4-5 ára aldur, þegar einkenni einhverfu eru oft mjög skýr. Atriðin ná yfir þrjú einkennasvið einhverfu sem skilgreind eru út frá DSM-IV og ICD-10, en þau eru; félagsleg samskipti; mál og tjáskipti og sérkennileg og áráttukennd hegðun. Viðtalið má nota frá tveggja ára þroskaaldri.

Spurningalisti um félagsleg tjáskipti (æviskeiðs-útgáfa) (SCQ)

SCQ er skimunarlisti sem lagður er fyrir foreldra eða forráðamenn barna eldri en fjögurra ára. Hann samanstendur af 40 spurningum sem snúa að einhverfurófseinkennum og eru svarmöguleikar já og nei. Mikilvægt er að sá sem þekkir best til þroskasögu barnsins og núverandi hegðunar fylli út listann. Niðurstöður skimunarlistans eru túlkaðar út frá stigafjölda og fari stigafjöldi yfir 15 er það vísbending um mögulega einhverfurófsröskun. Listinn skal lagður fyrir og túlkaður af fagaðila sem hefur góða þekkingu á einhverfurófseinkennum.  

Matslisti um hegðun á einhverfurófi (CARS2-ST: Childhood Autism Rating Scale, Second Edition)

CARS matslistanum er svarað af fagaðilum eftir að barn hefur komið til athugunar og foreldrar hafa gefið upplýsingar. Með listanum er metið  hvort hegðun barna líkist að einhverju leyti hegðun barna á einhverfurófi. Metin eru m.a. samskipti barnsins, viðbrögð við ýmsu í umhverfinu og sérkenni í hreyfingum og háttalagi. Listinn er notaður til að meta einstaklinga sem eru yngri en 6 ára eða mælast með 79 eða lægra í heildartölu greindar og hafa skerta mállega færni. Kvarðinn nær frá 15–60, þar sem hegðun sem samrýmist hegðun einhverfra barna mælist um og yfir 30 stig.

Matslisti um hegðun á einhverfurófi, útgáfa fyrir hátt standandi (CARS2-HF: Childhood Autism Rating Scale, Second Edition, High Functioning Version)

CARS matslistanum er svarað af fagaðilum eftir að barn hefur komið til athugunar og foreldrar hafa gefið upplýsingar. Með listanum er metið  hvort hegðun barna líkist að einhverju leyti hegðun barna á einhverfurófi. Metin eru m.a. samskipti barnsins, viðbrögð við ýmsu í umhverfinu og sérkenni í hreyfingum og háttalagi. Listinn er notaður til að meta einstaklinga sem eru eldri en 6 ára, eru með 80 eða hærra í heildartölu greindar og ágæta mállega færni. Kvarðinn nær frá 15–60, þar sem hegðun sem samrýmist hegðun einhverfra barna mælist um og yfir 28 stig.

Matslisti um einhverfueinkenni hjá börnum – endurskoðuð útgáfa (M-CHAT: Modified Checklist for Autism in Toddlers)

Með M-CHAT listanum er skimað eftir einhverfueinkennum hjá börnum á aldrinum 16–30 mánaða. Þeir sem þekkja barnið vel svara spurningunum. Svarmöguleikar eru: Já og Nei, og misjafnt er eftir spurningum hvort jákvætt eða neikvætt svar sé vísbending um einkenni á einhverfurófi. Sé tveimur lykilspurningum eða þremur spurningum í allt svarað þannig að svörin bendi til einhverfueinkenna er talin ástæða til að greina vandann frekar.

Skimlisti um einkenni á einhverfurófi  (ASSQ: Autism Spectrum Screening Questionnaire)

ASSQ listinn er notaður til þess að meta einkenni sem líkjast einkennum barna með Asperger heilkenni eða annan vanda á einhverfurófi. Atriðin á listanum eru 27. Svarandi tekur afstöðu til þess hvort  atriðin eigi við barnið eða ekki og hversu vel þau eigi við á  kvarðanum 0, 1 og 2. Gjarnan eru fengin svör foreldra og kennara. Fari stigafjöldi hvers svaranda um og yfir 20 er mögulega um vanda á einhverfurófi að ræða og ef til vill ástæða til að meta nánar. Listinn er ætlaður við mat á börnum frá 6 ára aldri. 

Matslisti um einhverfueinkenni hjá börnum (CAST: Childhood Autism Syndrome Test)

CAST listinn er notaður fyrir börn á aldrinum 4-11 ára til að skoða vanda tengdan félagsfærni og samskipum, einkum vanda á sviði einhverfurófs. Á listanum eru 31 atriði sem þeir sem þekkja barnið geta svarað með því að meta hvort lýsingin í hverju atriði á við barnið eða ekki. Fari stigafjöldi um og yfir 15 er mögulega um vanda á einhverfurófi að ræða og ástæða til að greina vandann frekar. 

Sjálfsmatskvarðar barna

Mat barns á eigin iðju (COSA: Child Occupation Self Assesment)

COSA er ætlað börnum 8–17 ára. Markmið matstækisins er að afla upplýsinga um upplifun barna á eigin iðju og hvernig umhverfið hefur áhrif á daglegar athafnir þeirra. COSA er sjálfsmat barna, hannað með það í huga að gera börnum kleift að láta í ljós skoðanir sínar á daglegum viðfangsefnum.

Spurningalisti um depurð (CDI)  

Matslistinn er notaður við mat á depurðarvanda barna og unglinga á aldrinum 7–17 ára. Börnin svara listanum sjálf og eru í hverri spurningu beðin að velja eina setningu af þremur sem lýsir best hvernig þeim hefur liðið síðustu 2 vikurnar. Spurt um 5 meginþætti  sem helst einkenna þunglyndi: Neikvætt skap, Samskiptavandamál, Vanvirkni, Leiða og Neikvætt sjálfsmat. 

Spurningalisti um fælni og kvíða (MASC)

MASC sjálfsmatslistinn metur kvíðaeinkenni barna og ungmenna á aldrinum 8–19 ára.  Hann er samansettur af fjórum kvörðum: Líkamleg einkenni (streita og líkamleg einkenni), Forðun (fullkomnunarárátta og bjargráð), Félagsfælni (frammistöðukvíði og ótti við niðurlægingu) og Aðskilnaður/felmtur (skyndileg ofsahræðsla eða hræðsla við aðskilnað/að vera einn).  

Tölvupróf  

Athyglispróf Conners (CPT: Conners’ Continuous Performance Test) 

CPT er tölvupróf sem metur hvernig börnum gengur að hafa stjórn á og viðhalda athygli og halda aftur af hvatvísi. Verkefnið felur í sér að barnið fylgist með og bregst við myndum (4–5 ára) eða bókstöfum (6 ára  og eldri) sem birtast á tölvuskjá en þarf að halda aftur af svörun þegar einn tiltekinn stafur eða tiltekin mynd birtist. Prófið gefur upp ákveðnar líkur á hvort barn glími við athyglisbrest- og ofvirkni/hvatvísi (ADHD) með því að bera frammistöðuna saman við svör bandarískra barna sem hafa greinst með ADHD og samanburðarhóp án ADHD.

Aðrir matskvarðar

Mat á starfshæfni barna (CGAS: Children´s Global Assessment Scale)

Alhliða matskvarði sem fagaðilar nota til að meta skerðingu á almennri starfshæfni barna á aldrinum 4–16 ára. Valin er stigatala á kvarðanum 1-100 sem er talin lýsandi fyrir starfshæfni barns undanfarinn mánuð. Ákveðnar lýsingar á starfshæfni liggja að baki tölunum. Lág tala gefur til kynna meiri skerðingu en há tala. 


Okkar hlutverk

Hlutverk Þroska- og hegðunarstöðvar er að efla lífsgæði og framtíðarhorfur barna, draga úr hamlandi áhrifum hvers kyns frávika í þroska, hegðun og líðan og vinna gegn þróun alvarlegri vanda

magnifier
StarfsmennStarfsheitiSímiNetfang
Ágúst Skorri SigurðssonHeilsugæsluritari513-5150
Ágústa Ásgerður ArnardóttirSálfræðingur513-5150
Álfheiður SigurðardóttirInntökustjóri513-5150
Áslaug Heiða PálsdóttirBarnalæknir513-5150
Berglind HauksdóttirSálfræðingur513-5150
Bettý RagnarsdóttirSálfræðingur513-5150
Björn Gauti BjörnssonSálfræðingur513-5150
Dagmar Kristín HannesdóttirSálfræðingur513-5150
Dóra Kr. TraustadóttirMóttökuritari513-5150
Elva Björk ÞórhallsdóttirSálfræðingur513-5150
Guðrún Haesler Sálfræðingur513-5150
Gyða Sigurlaug HaraldsdóttirForstöðumaður513-5150
Hallfríður Sunna Pétursdóttir Móttökuritari513-5000
Helga Jónína KristjánsdóttirInntökustjóriÍ leyfi
Hildur GunnarsdóttirSálfræðingur513-5150
Katrín DavíðsdóttirFagstjóri lækninga513-5150
Kolbrún Sif Hrannarsdóttir Félagsráðgjafi513-5150
Kristín Eva RögnvaldsdóttirSálfræðingur513-5150
Kristín KristmundsdóttirFélagsráðgjafi513-5150
Laufey Ásta GuðmundsdóttirSálfræðinemi513-5150
Lone JensenÞroskaþjálfi513-5150
Margrét ÍsleifsdóttirIðjuþjálfi513-5150
Nína Sigurveig BjörnsdóttirLæknir513-5150
Sandra Björg SigurjónsdóttirSálfræðingur513-5150
Steinunn Fríður JensdóttirSálfræðingur513-5150
Sturla BrynjólfssonSálfræðingur513-5950
Þóra JónsdóttirHjúkrunarfræðingur513-5150
Þórunn ÆvarsdóttirSálfræðingur513-5150

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?