Greina hvar vandi liggur

Mynd af frétt Greina hvar vandi liggur
18.01.2019

Sálfræðiþjónusta er ókeypis fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri á öllum stöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Öflugur hópur sálfræðinga starfar á stöðvunum við mat á vanda, meðferð og ráðgjöf. Sálfræðingarnir eru í samstarfi við lækna, hjúkrunarfræðinga og annað fagfólk á hverri stöð. Einnig er samstarf eftir þörfum við skóla- og félagsþjónustu, barnavernd og Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Kvíði, þunglyndi og hegðun

Þeir sem telja barn sitt þurfa aðstoð eða þjónustu sálfræðinga panta tíma hjá heimilislækni. Í samráði við hann er ákveðið hvort vísa eigi til sálfræðings á stöðinni. Bið eftir tíma hjá sálfræðingi er nokkuð mismunandi eftir stöðvum. Stundum er engin bið og almennt er bið ekki lengri en tólf vikur. Málefni hvers og eins er skoðað og erindum forgangsraðað þannig að ef málið er aðkallandi þá er tími gefinn fljótt. Ef um biðtíma er að ræða getur fólk fengið upplýsingar um sjálfhjálparefni til dæmis á vefsíðum og bókum. Lista yfir sjálfshjálparefni má sjá hér fyrir neðan.

Hægt er að leita til sálfræðinga á heilsugæslustöðvunum með ýmis mál.  Sálfræðingar meta eðli vanda og í framhaldinu er ákveðið hvort þörf sé á meðferð og þá hvernig. Vandi eins og kvíði, þunglyndi og hegðunarvandi eru mjög algengt viðfangsefni. Til dæmis þegar barn á í erfiðleikum með að fara eftir fyrirmælum eða tekur tíð skapofsaköst, getur ekki gist hjá vinum eða farið í skólaferðalög eða vill ekki mæta í skóla.

Foreldrar með í fyrsta viðtal

Þegar barn á erfitt með að mæta í skóla þarf að ganga úr skugga um hvar vandinn liggur, til dæmis hvort námserfiðleikar eða einelti sé til staðar, erfiðar heimilisaðstæður, þunglyndi eða hvort barnið sé að gera allt of miklar kröfur til sjálfs síns um frammistöðu. Einnig þarf að muna að kvíði, depurð, sorg og pirringur geta verið mjög eðlilegar tilfinningar við ákveðnar aðstæður og krefjast ekki endilega inngripa.

Þegar vandi er alvarlegur eða sérhæfður þá getur sálfræðingur á heilsugæslustöð vísað í greiningu og meðferð annars staðar og auðveldað þannig aðgengi að þeirri þjónustu sem barnið eða unglingurinn þarfnast. Sálfræðingar á heilsugæslustöðvunum gera ekki greiningar á námserfiðleikum eða þroskafrávikum eins og ADHD og einhverfu.

Boðið er uppá einstaklingsmeðferð, foreldraráðgjöf og á sumum stöðvum hópmeðferð. Foreldrar koma yfirleitt með í fyrsta viðtal, gefa upplýsingar um þroskasögu og sína sýn á vandann ásamt því að leitað er eftir upplýsingum frá barninu eða unglingnum. Stálpaðir unglingar mæta oftast einir í einstaklingsviðtöl eða í hópmeðferð. Foreldrar taka yfirleitt fullan þátt í meðferð barna undir 12 ára, það er mæta með barninu og aðstoða við heimaæfingar á milli tíma, hvort sem um er að ræða einstaklingsviðtöl eða hópmeðferð.

Árangur næst oft fljótt

Meðferð barna á leikskólaaldri fer nær eingöngu fram í gegnum foreldra. Það á einnig við um ráðgjöf vegna hegðunarvanda. Þá eru t.d. viðbrögð foreldra skoðuð og síðan fá foreldrar leiðbeiningar um æskilegri viðbrögð í samskiptum við barnið. Lengd meðferðar er mismunandi og fer eftir vanda. Almennt næst árangur á 4-6 tímum, jafnvel á styttri tíma en stundum lengri.  Þegar meðferð er lokið þá er hægt að bjóða eftirfylgdartíma eða símtal eða bjóða foreldrum að hafa samband ef bakslag verður.

Nánari upplýsingar um sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum má finna á hér á vefnum.

Bjargráð á biðtíma

Agnes Agnarsdóttir fagstjóri sálfræðinga, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Sigríður Snorradóttir sálfræðingur, Heilsugæslunni Seltjarnarnesi og Vesturbæ

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu