Bragð - og lyktarskyn

Bragðskyn getur breyst þegar í upphafi meðgöngu.

Stundum finna konur óbragð í munni, járn- eða málmbragð. Einnig getur bragð breyst, það sem áður bragðaðist vel er nú jafnvel vont. Sumar konur fyllast löngun í bragð/mat sem þær eru ekki vanar að borða eða þykja góður.

Lyktarskyn verður næmara og getur haft áhrif á ógleði og/eða löngun í mat. Breyting á lyktar og bragðskyni getur leitt til þess að matarlyst breytist.

Brjóstsviði

Brjóstsviði er algengur fylgikvilli meðgöngu. Vegna hormónabreytinga hægist á starfsemi meltingarfæranna sem seinkar tæmingu magainnihaldsins. Loft og magasýrur berast upp í vélinda og valda brjóstsviða. Einnig getur þrýstingur á maga móðurinnar vegna stækkunar á legi og barni aukið einkennin.

Hægðatregða

Það hægir á þarmahreyfingum á meðgöngu og getur það leitt til harðlífis og hægðatregðu. Hægðatregða er algengara vandamál á síðasta þriðjungi meðgöngu en getur komið á öðrum tíma.

Ógleði

Allt að 90% kvenna finna fyrir ógleði og uppköstum á meðgöngu. Þungunarhormón er talið helsti orsakavaldur, ásamt breytingum á efnaskiptum, meltingu og tilfinningalegri líðan.
Algengast er að þessi einkenni vari fyrstu 12-14 vikur meðgöngunnar. Þrátt fyrir vanlíðan móður hafa rannsóknir sýnt að ógleði og væg uppköst eru ekki skaðleg fóstrinu og hefur ekki slæm áhrif á meðgönguna eða fæðinguna.

Yfirfarið 2016.
Höfundar: Karitas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, ljósmæður mæðravernd Þróunarsviði.